Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda

Efni: Þingsályktunartillaga um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, 19. mál

Að mati Alþýðusambands Íslands er um að ræða tímabært og mikilvægt framtak, ekki síst í ljósi upplýsinga sem komið hafa fram og umræðu síðustu daga og vikur. Þar hefur ítrekað komið fram að mikið skortir á að erlent launafólk og aðra innflytjendur fái upplýsingar um íslenskt samfélag, réttindi og skyldur á vinnumarkaði og hafi aðgang að ráðgjöf og stuðningi þegar þörf krefur.

Alþýðusambandið og aðildarfélög þess hafa fyrir sitt leiti reynt að mæta þessari þörf með útgáfu á upplýsinga- og kynningarefni, m.a. á ensku og pólsku, sérstökum  upplýsingavef, www.ekkertsvindl.is, og heimsóknum á vinnustaði þar sem upplýsingaefni er dreift og rætt við erlent launafólk. Þá má benda á að stöðugt vaxandi hluti af daglegu starfi á skrifstofum stéttarfélaganna felst í því að upplýsa og liðsinna félögum okkar af erlendum uppruna. Um leið erum við meðvituð um að gera þarf enn betur. Þá hafa ýmsir aðilar aðrir eins og Fjölmenningarsetur, Rauði krossinn, Mímir-símenntun og aðrar símenntunarmiðstöðvar, og almannaheillasamtök lagt sitt lóð á vogarskálarnar.

Á sama tíma skortir mikið á að Ísland sem samfélag, íslensk stjórnvöld og sveitarfélög, uppfylli lagalegar og siðferðilegar skyldur sínar þegar kemur að upplýsingum, ráðgjöf og stuðningi við innflytjendur. Má þar nefna skuldbindingar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og í lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga.

Að mati Alþýðusambands Íslands er mikilvægt að greina og komast að niðurstöðu um  hvernig best er að bæta úr í þessum efnum. Eins og áður hefur komið fram eru þegar í dag ýmsir aðilar sem koma að upplýsingum og ráðgjöf fyrir útlendinga hér á landi. Það er því spurning hvort ekki sé rétt að nálgast viðfangsefnið með því að þessir aðilar, ásamt fulltrúum innflytjenda, stjórnvalda og sveitarfélaganna, sammælast um hver sé besta leiðin til að ná þeim mikilvægu markmiðum sem eru kjarninn í þingsályktunartillögunni. Í því samhengi mætti hugsa sér „ráðgjafarstofa innflytjenda“ sem ákveðinn miðlægan samstarfsvettvang og kjölfestu, en jafnframt er mikilvægt að skipuleggja þjónustuna þannig að hún gagnist innflytjendum um land allt, bæði með starfstöðvum og með því að nýta upplýsingaveitur á vefnum og samfélagsmiðla.

Mikilvægt er að með samþykkt Alþingis fylgi bæði skýr tímarammi til að vinna eftir og fjármunir til að hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem niðurstaða verður um.