Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017

21. febrúar 2014
Reykjavík, 03.02.2014
Tilvísun: 201401-0031
 
 
Efni: Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017
 
Lagðar eru til aðgerðir á fjórum lykilsviðum sem ætlað er að uppfylla markmið áætlunarinnar um að „jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf“. 
 
ASÍ telur mikilvægt að atvinnulífið búi að sterkum grunnstoðum sem forsendu fyrir bættum lífskjörum og sköpun starfa. Með þessu er átt við að einstaklingar og atvinnulíf þurfi að búa við öryggi í samgöngum, fjarskiptum, flutningi gagna og orku, og að tryggt sé að innviðir þróist eftir þörfum notenda. 
ASÍ tekur undir þau sjónarmið að styðja þurfi við brothætt byggðarlög og bregðast við viðvarandi fólksfækkun á ákveðnum svæðum. Hinsvegar er ólíklegt að sértækar aðgerðir á borð við lækkað tryggingagjald eða hækkaðar barnabætur séu best til þess fallnar að sporna við þróuninni. Þörf er á almennri nálgun að vandanum og að fremur verði horft til þess hvernig treysta megi forsendur góðra búsetuskilyrða með bættum innviðum, aukinni nýsköpun og fjárfestingu á brothættum svæðum. Því er mikilvægt að horft verði til þess hvernig bæta megi umhverfi nýfjárfestinga hérlendis, nýsköpunar  og vaxtagreina. Þetta er ekki síður mikilvægt á þeim svæðum sem eiga undir högg að sækja en ljóst er að tryggja þarf fjármuni til að hrinda göfugum markmiðum í framkvæmd. 
Þar telur ASÍ að aukin framlög til samkeppnissjóða séu skilvirk leið til eflingar nýsköpunar auk hvata til rannsókna og þróunar. Ennfremur þurfi að líta til þess hvernig endurbæta megi umhverfi nýsköpunar og fjárfestinga þar sem aukin skilvirkni og samkeppnishæfni séu höfð að leiðarljósi. 
 
 
Virðingarfyllst,
Róbert Farestveit
Hagfræðingur hjá ASÍ