Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína

Reykjavík, 27.11.2014
Tilvísun: 201411-0010

Efni: Þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, 321. mál

ASÍ telur það jákvætt skref að fyrir liggi stefna um lagningu raflína sem höfð er að leiðarljósi við gerð kerfisáætlunar. Mikilvægt er að sátt ríki um stórar framkvæmdir við megin flutningskerfið þar sem horfa þarf til kostnaðar og þ.a.l. áhrifa á raforkuverð og samkeppnishæfni ólíkra atvinnugreina, en ekki síður til ábata sem er ekki alltaf skýr, ábata af ósnortinni náttúru fyrir komandi kynslóðir, landsmenn og ferðamenn.
ASÍ tekur undir þau sjónarmið að umhverfis- og öryggissjónarmið geti kallað á lagningu jarðstrengs umfram loftlínu. Hins vegar eru þau viðmið þröng eins og þau birtast í þingskjalinu og telur ASÍ að þörf sé á 6. viðmiðinu sem tekur á línuleið sem liggur utan friðlands eða þjóðgarðs (skv. 53. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd). Að óbreyttu er stefnan ekki líkleg til að skapa sátt um megin flutningskerfið og líkleg til að skapa deilur um ákvörðun þjóðgarða og friðlanda.
Einnig gerir ASÍ athugasemdir við kostnaðarviðmiðin og telur að þau kunni að vera of lág og takmarkandi, sérstaklega þegar ráðist verður í framkvæmdir í ósnortinni náttúru þar sem mikilvægt er að breið sátt ríkir.

f.h. ASÍ
Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur
Róbert Farestveit, hagfræðingur