Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um starfshóp um keðjuábyrgð

Reykjavík, 8. mars 2017
Tilvísun: 201702-0009


Efni: Þingsályktunartillaga um starfshóp um keðjuábyrgð, 69. mál

Mikil þensla á íslenskum vinnumarkaði, fjölgun erlendra starfsmanna og aukin umsvif erlendra verktaka og þjónustufyrirtækja hefur varpað skýrara ljósi á ýmis vandamál tengd vinnumarkaðinum, þ.m.t. talið undirboð á vinnumarkaði, ýmis konar brotastarfsemi gagnvart starfsmönnum og tilraunir til að komast hjá því að standa skil á sköttum og öðrum greiðslum í sameiginlega sjóði samfélagsins. Verkalýðshreyfingin hefur lengi bent á þessar meinsemdir og sama gildir um yfirvöld skattamála.

Mikilvægt er að sporna gegn framangreindri brotastarfsemi með öllum tiltækum ráðum enda tapa allir á henni, nema svindlararnir:

- Útlendingar og ungt fólk sem verður fyrir alvarlegustu brotunum
- Launafólk sem fyrir er á vinnumarkaði, vegna þess að grafið er undan þeim kjörum og réttindum sem hér gilda
- Heiðarleg fyrirtæki, vegna þess að grafið er undan samkeppnisstöðu þeirra
- Samfélagið allt, vegna þess að grafið er undar mikilvægum þáttum eins og heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu.

Alþýðusambandið heilshugar undir þær áhyggjur og þau almennu sjónarmið sem þingsályktunartillagan byggir á.
Í þessu samhengi er rétt að geta þess að nú er að störfum starfshópur á vegum félags- og jafnréttisráðherra sem vinnur að innleiðingu tilskipunar ESB nr. 2014/67 er varðar skyldu íslenskra notendafyrirtækja vegna starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja á þeirra vegum. Í starfshópnum er unnið að tillögum um að tekin verði upp keðjuábyrgð vegna starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja. Það liggur jafnframt fyrir að keðjuábyrgðin verður takmörkuð við framangreindan hóp og mun eingöngu ná til launa og annarra starfskjara. Hér er um mikilvægt skref að ræða, verði tillögurnar að lögum á yfirstandandi þingi eins og stefnt er að. Um leið er ljóst að þær munu aðeins ná til takmarkaðs hóps og takmarkast við afmarkaðan þátt.

Í ljósi framanritaðs styður Alþýðusambandi að skipaður verði starfshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að fjalla um hvort og þá hvernig megi útvíkka keðjuábyrgðina og/eða finna aðrar leiðir til að ná þeim markmiðum að tryggja hér heilbrigðan vinnumarkað og vinna gegn brotastarfsemi sem þar viðgengst. Jafnframt er rétt að benda á að ýmsir þættir er varða þau úrlausnarefni varða fleiri ráðuneyti en það sem heyrir undir félags- og jafnréttisráðherra, s.s. fjármálaráðuneytið hvað varðar skattamálin og er mikilvægt að hafa það í huga við afgreiðslu málsins.

Virðingarfyllst
F.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ