Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur

Reykjavík, 11.08.2016
Tilvísun: 201606-0001

Efni: Þingsályktunartillaga um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, 783. mál

Utanríkismálanefnd hefur óskað eftir afstöðu Alþýðusambandsins á samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Málið er nátengt búvörusamningum en Alþýðusambandið hefur lagt skýra áherslu á að horfa þurfi til víðtækra hagsmuna í tengslum við stefnumótun í landbúnaði, ekki einungis hagsmuni framleiðenda og afurðastöðva heldur einnig launafólks í greininni og neytenda. Líkt og rakið er í greinargerðinni á tollasamningurinn sér þó nokkurn aðdraganda þar sem upphaf þeirra má rekja til þess að innlendir aðilar höfðu áhuga á auknum tollfrjálsum útflutningi inn á markaði Evrópusambandsins.

Meginmarkmið búvörusamninga (þ.e. mjólkurframleiðslu) hafa frá árinu 2004 verið að stuðningur við greinina eigi að stuðla að hagræðingu, aukinni samkeppni og lægra vöruverði til neytenda. Þar er einnig getið að greinin eigi að fá svigrúm til að takast á við erlenda samkeppni en sátt ríkti um þessi markmið í vinnu nefndar sem vann að stefnumótun í mjólkurframleiðslu . Ljóst er að heilmiklar breytingar hafa verið á orðið á mjólkurframleiðslu frá 2004 en fákeppni og einokun hamla því að tækniframfarir, samþjöppun og stækkun búa skili sér í lægra verði til neytenda. Í því samhengi er rétt að benda á nýlega ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að leggja 480 m.kr. sekt á Mjólkursamsöluna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum en í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir m.a. „að MS hafi með mjög alvarlegum hætti brotið Samkeppnislög“ og „Var þetta til þess fallið að veita þeim verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti var geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti og markaðsráðandi staða MS varin. Er það til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda og bænda."

Alþýðusambandið hefur lengi kallað eftir lækkun tolla og einnig talið mikilvægt að samkeppni aukist með landbúnaðarvörur ásamt því að mótuð sé sókndjörf landbúnaðarstefna með það markmiði að auka framleiðslu, gæði og bæta hag neytenda, launafólks og bænda. Rétta leiðin í þeim efnum er að gerðir séu samningar um gagnkvæma opnun markaða. Með þessum hætti verða til tækifæri til aukins útflutnings innlendrar framleiðslu en með ofangreindum samningi verður til tollfrjáls kvóti fyrir svínakjöt, alifuglakjöt, unnið lambakjöt og ost ásamt því að tollfrjáls kvóti fyrir skyr nærri tífaldast ásamt verulegri aukningu lambakjötskvóta á mörkuðum Evrópusambandsins. Að sama skapi aukast tollkvótar fyrir erlendar vörur hér á landi sem stuðla að samkeppni og hvetja framleiðendur til aukinnar hagræðingar í framleiðslu.

Ólíkt fyrirkomulag stuðnings og styrkja í landbúnaði og framleiðslu gerir það að verkum að mikill munur er á áhrifum samningsins á ólíkar greinar enda ljóst að töluverður munur er á stuðningi í mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt annars vegar og svo alifugla og svínarækt hins vegar. Það er því jákvætt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi skipað starfshóp sem sérstaklega er ætlað að kanna áhrif samningsins á einstakar búgreinar, þá sérstaklega svína og alifuglaræktendur.

Tollar voru felldir niður í garðyrkju árið 2002 ásamt því að komið var á beingreiðslukerfi. Reynslan af breytingunum var jákvæð þar sem verð til neytenda á gúrkum, papriku og tómötum lækkaði á bilinu 30-50%. Innlend framleiðsla hefur aukist á gúrkum og tómötum ásamt því að framleiðendur haldið markaðshlutdeild á meðan framleiðslu á papriku hefur gefið eftir .
ASÍ hvetur því Alþingi til að staðfesta samning Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

f.h. ASÍ
Róbert Farestveit
Hagfræðingur