Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar (þriðji orkupakkinn)

Reykjavík 29.4.2019
Tilvísun: 201904-0022

Efni: Þingsályktunartillaga um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál

Málið hefur verið afar umdeilt meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa og verður ekki slitið úr samhengi við umræðuna um hvaða grunnstoðir eigi að vera í samfélagslegri eigu og undanskildar markaðslögmálunum.

Í greinagerð með þingsályktunartillögunni er skýrt tekið fram að samkvæmt orkupakka 1 og orkupakka 2 er almennt litið á orku eins og hverja aðra vöru sem samkeppnislögmál gildi um. Það gerðist með innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög að vinnsla og sala raforku skyldi rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrunni. Þá er greint frá því að „Með þriðju raforkutilskipuinni er gengið lengra í að stuðla að virkum raforkumarkaði með því að tryggja aðskilnað á eignarhaldi í flutningsstarfsemi frá markaðasaðilum og raforkueftirlit eflt með ýmsum úrræðum og sjálfstæði þess tryggt.“

Raforka er grunnþjónusta og á ekki, að mati Alþýðusambands Íslands, að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu launafólks.

Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi.


Virðingarfyllst,
Drífa Snædal,
forseti ASÍ