Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun)

Reykjavík 30.4.208
Tilvísun: 201802-0007

Efni: Þingsályktunartillaga um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun), 9. mál

Með tillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur sem kortleggi leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og stuðla að jöfnum tækifærum.

ASÍ hefur í rúmlega 100 ára sögu sinni barist fyrir rétti fólks til mannsæmandi framfærslu og almennra lífsgæða. Verkalýðshreyfingin leggur áherslu á hækkun lægstu launa og umbætur í réttinda- og tryggingakerfum landsmanna. Krafa okkar er að allir geti lifað af launum sínum og sé tryggð framfærsla vegna atvinnuleysis, barnsfæðinga, aldurs, fötlunar, sjúkdóma og slysa.

ASÍ stendur vörð um þau framfærslu- og réttindakerfi sem til staðar eru. Stjórnvöld þurfa að tryggja að nægilegu fé sé veitt til þeirra svo að enginn þurfi að búa við fátækt. Brýnustu verkefni stjórnvalda eru að gera umbætur á þessum kerfum. Sérstaklega er vakin athygli á skattkerfinu, almannatryggingakerfinu og vinnumarkaðstengdum réttindum.

Stjórnvöld verða að gera umbætur á skattkerfinu til að draga úr skattbyrði þeirra tekjulægri með hækkun persónuafsláttar og með því að draga úr eignatengingum vaxtabóta og tekjutengingum barnabóta. Gott yfirlit yfir mikla hækkun skatta á lágtekjufólk er að finna í skýrslu ASÍ „Skattbyrði launafólks 1998-2916“ sem gefin var út í ágúst 2017.

Mikið skortir á að vinnumarkaðstengdu réttindin hafi verið endurreist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Tryggja þarf að atvinnuleysistryggingar fylgi launaþróun og hækka verður launatengdu réttindin til jafns við grunnréttindin. Einnig verða réttindi í Ábyrgðasjóði launa að fylgja launaþróun. ASÍ hefur ítrekað gagnrýnt þá lífskjaraskerðingu sem ungbarnafjölskyldur hafa mátt þola á síðustu árum vegna mikillar kaupmáttarrýrnunar fæðingarorlofs. ASÍ telur brýnt að hækka nú þegar hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði í 645.000 krónur á mánuði og lítur það alvarlegum augum að ekki eiga að fara að tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem lagði til að tekjur upp að 300.000 krónum á mánuði skerðist ekki og að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12 í áföngum.

Mikilvægar umbætur voru gerðar á ellilífeyrishluta almannatrygginga árið 2017 en mikilvægt er að draga úr tekjutengingum í kerfinu. Fara verður strax í endurskoðun á örorkulífeyrishlutanum en örorkulífeyrisþegar búa við óviðunandi kerfi með krónu á móti krónu skerðingum. Þá brýnir ASÍ stjórnvöld til að auka réttindi þeirra lífeyrisþega sem búa með öðrum en réttindi þeirra hafa verið skert hlutfallslega miðað við þá sem búa einir á síðustu árum.

Kjör og lífsgæði ráðast ekki síður af þeirri almannaþjónustu sem stjórnvöld veita og kostnaði fólks við hana. ASÍ hefur ávallt lagt ríka áherslu á húsnæðismál. Almenna íbúðakerfið, sem veita á lágtekjufólki aðgang að leiguhúsnæði á viðunandi verði, hefði ekki orðið að veruleika nema fyrir áralanga baráttu og staðfestu verkalýðshreyfingarinnar. Meginverkefni stjórnvalda á næstu árum er að veita auknu fé til stofnstyrkja almennra íbúða og fjölga þeim til samræmis við þörf. Einnig þarf að tryggja að húsnæðisbætur fylgi leiguverði. Húsnæðisöryggi er grundvöllur fyrir mannsæmandi líf.

Kostnaður sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu er allt of hár. Ísland sker sig úr í samanburði við hin Norðurlöndin í því hversu margir þurfa að fresta nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Nýtt greiðsluþátttökukerfi auðveldar stjórnvöldum að lækka kostnað landsmanna við að leita sér þjónustu innan heilbrigðiskerfisins en til þess þarf að veita auknum fjármunum inn í kerfið.

Íslenska velferðarkerfinu er ætlað að mæta mismunandi þörfum fólks með tilliti til framfærslubyrði, stöðu á vinnumarkaði, heilsu og aldurs auk ýmissa annarra þarfa. Til að það nái markmiðum sínum um efnahagslegt og félagslegt öryggi fólks og jöfnuð hvetur ASÍ Alþingi til að standa vörð um velferðarkerfið og tryggja virkni þess og fjármögnun.

Vaxandi áhuga gætir á skilyrðislausri grunnframfærslu til að takast á við aukinn tekju- og eignaójöfnuð, mögulegar breytingar á eðli starfa vegna tæknibreytinga og til að auka frelsi fólks til athafna. ASÍ telur mikilvægt að taka þátt í þessari umræðu og hélt ráðstefnu um borgaralaun í byrjun mánaðarins. Umræðan um borgaralaun er áhugaverð því hún varpar nýju ljósi á áskoranir samtímans. ASÍ varar þó við hugmyndinni um að ríkissjóður fjármagni grunnframfærslu allra landsmanna enda væri það gríðarlega kostnaðarsamt og myndi að öllum líkindum auka ójöfnuð og draga verulega úr getu hins opinbera til að veita almannaþjónustu og tryggja mannsæmandi framfærslu þeirra hópa sem þurfa að reiða sig á framfærslukerfi hins opinbera.

Hins vegar eru til margar útfærslur á borgaralaunum og ASÍ setur sig ekki upp á móti því að sérstök nefnd verði skipuð til að afla frekari þekkingar og meta hvort tilefni sé til tilraunaverkefna um borgaralaun.

Virðingarfyllst,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Hagfræðingur hjá ASÍ