Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um skattleysi launatekna undir 300.000 kr.

Reykjavík, 12.11.2018
Tilvísun: 201809-0038

Efni: Þingsályktunartillaga um skattleysi launatekna undir 300.000 kr., 8. mál 

ASÍ tekur undir markmið tillögunnar um að draga þurfi úr skattbyrði launafólks en hún hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum og sú þróun komið verst niður á hinum tekjulægstu. Skoða þarf ólíkar leiðir til að bæta lífskjör launafólks með samspili breytinga á tekjuskattkerfinu, eflingu tilfærslukerfanna og átaki í að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra.

Í skýrslu hagdeildar ASÍ, „Skattbyrði launafólks 1998-2016“ var reynt að varpa ljósi á þróun tekjuskattkerfisins frá árinu 1998 og samspili skattkerfisins við tilfærslukerfin, launaþróun og þróun persónuafsláttar. Meginniðurstaða skýrslunnar var sú að skattbyrði flestra hópa á vinnumarkaði hefði aukist yfir tímabilið en þar af langmest hjá lágtekjuhópum. Þróunina mætti rekja til þriggja atriða. Í fyrsta lagi vegna misgengis í þróun launa og persónuafsláttar þar sem uppbygging kerfisins leiðir til sjálfvirkrar aukningar skattbyrði þegar laun hækka umfram verðlag. Í öðru lagi vegna aukinna skerðinga og veikingar vaxtabótakerfisins. Í þriðja lagi vegna aukinna skerðinga og veikingar barnabótakerfisins.

Verkalýðshreyfingin hefur um langt skeið bent á þessa þróun. Niðurstaðan hefur verið að einungis 18% fjölskyldna sem eiga húsnæði fengu vaxtabætur árið 2016 samanborið við 47% árið 1998 (hlutfallið hefur farið úr 62% í 28% fyrir einhleypa). Í barnabótakerfinu er þróunin sú að 48% fjölskyldna fengu barnabætur árið 2016 og fækkunin verið mikil frá hruni þegar yfir 70% fjölskyldna fengu barnabætur. Þróunin til skemmri tíma hefur verið með sama hætti, frá árinu 2013 hefur þetta komið fram í fækkun upp á 18 þúsund viðtakendur vaxtabóta og 13 þúsund viðtakendur barnabóta.

Framangreind þróun hlaut mikla umræðu á nýafstöðnu þingi ASÍ og í nýsamþykktri stefnu ASÍ er kallað eftir því að stjórnvöld tryggi jöfnunarhlutverk skatt- og tilfærslukerfanna. Þar segir m.a.
Skattatilfærsla stjórnvalda síðustu áratugi hefur létt sköttum af hinum hæst launuðu og aukið skattbyrði á lág- og millitekjuhópa. Þetta skal leiðrétt.

• Skattkerfið verði nýtt sem raunverulegt jöfnunartæki. Skattar á lágtekjufólk verði lækkaðir, lægstu laun gerð skattfrjáls með hækkun persónuafsláttar sem fylgi launaþróun og komið verði í veg fyrir sjálfvirkar skattahækkanir hinna tekjulægstu.
• Húsnæðis- og barnabótakerfin verði endurreist og horfið verði frá þeirri stefnu að sá stuðningur renni einungis til hinna tekjulægstu.
• Hæstu tekjur samfélagsins verði skattlagðar með sérstöku hátekjuþrepi.
• Lagðir verði á auðlegðarskattar og fjármagnstekjuskattur hækkaður til að stuðla að samfélagssátt og bregðast við auknum ójöfnuði eigna.
• Brugðist verði við skattaundanskotum með auknu skatteftirliti.
• Að notendur sameiginlegra auðlinda greiði fyrir það eðlilegt gjald.
• Styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga verði skattfrjálsir.

f.h. Alþýðusambands Íslands
Róbert Farestveit,
hagfræðingur