Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um menntun og atvinnusköpun ungs fólks

Reykjavík, 24. mars 2011

Tilvísun: 201103-0018

Tillaga til þingsályktunar um menntun og atvinnusköpun ungs fólks - 449 mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar tillaga til þingsályktunar um menntun og atvinnusköpun ungs fólks, 449. mál.

Í tillögunni kemur fram að markmiðið með þeirri vinnu sem þar er lög til sé þríþætt: Að vinna bug á langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks, efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli eftir slíkri menntun. Jafnframt er lögð áhersla á að allir þeir sem málið varðar, þ.e. viðkomandi ráðuneyti, stjórnvaldsstofnanir og hagsmunaaðilar, þ.m.t. helstu aðilar vinnumarkaðarins komi að verkinu. Í greinargerð með tillögunni er gerð ágæt grein fyrir stöðu mála í dag, hvað varðar mikið atvinnuleysi meðal ungs fólk, mikilvægi þess að efla verk- og starfsmenntun og svara spurn atvinnulífsins eftir verk- og tæknimenntuðu fólki. Bæta mætti við fleiri staðreyndum um stöðu mála til að rökstyðja efni tillögunnar frekar, s.s. hið mikla brottfall sem nú er úr framhaldsskólanum. Þannig sýna nýjustu upplýsingar að hlutfall fólks á aldrinum 25 – 34 ára án formlegrar menntunar að loknum grunnskóla er um 30% og brottfallið úr framhaldsskólanum liggur nærri 28%.

Alþýðusamband Íslands styður heilshugar þá tillögu til þingsályktunar sem hér er til umfjöllunar og hvetur til þess að hún verði samþykkt sem fyrst. ASÍ mun taka virkan þátt í því starfi sem lagt er upp með og mun fyrir sitt leyti gera allt sem í þess valdi stendur til að vinna að þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Þar sem tíminn sem ætlaður er til að skila verkinu er aðeins til 1. júlí nk. vill ASÍ benda á að um leið og mikilvægt er að vinna hratt að málinu þarf að vanda vel til verka. Það kann því að vera skynsamlegt að þeim aðilum sem falið verður að vinna verkið verði gefin rýmri tími til að ljúka því, en að áfangaskýrslu ásamt fyrstu tillögum verði skilað strax í vor.


Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ