Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um greiðsluþátttöku sjúklinga

Reykjavík 13.3.2018
Tilvísun: 201802-0043


Efni: Þingsályktunartillaga um greiðsluþátttöku sjúklinga, 44. mál

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um greiðsluþátttöku sjúklinga, gjaldfrjálsa heilsugæslu og lægri hlutdeild lífeyrisþega í kostnaði við tannlækningar.

ASÍ hefur áður veitt umsögn um sambærilega tillögu sem flutt var á 146. löggjafarþingi (49. mál) og ítrekar hér með afstöðu sína til málsins.

Hámarksgreiðslur sjúkratryggðra fyrir læknisþjónustu verði 35.000 kr. á ári
ASÍ hefur á liðnum árum ítrekað fjallað og ályktað um nauðsyn þess að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu. Sérstök áhersla var lögð á það af hálfu ASÍ í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2015 að dregið yrði úr kostnaðarþátttöku sjúklinga og var yfirlýsing þess efnis hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem samþykktar voru í tengslum við samningana. Á 145. löggjafarþingi voru samþykktar breytingar á lögum um sjúkratryggingar. ASÍ studdi markmið þeirra breytinga en gerði alvarlegar athugasemdir við að kostnaðarþakið fyrir almenna notendur ætti að verða 95.200 kr. á ári. Drög að reglugerð þess efnis fylgdu frumvarpinu. Í nefndaráliti velferðarnefndar á þingskjali 1433 – 676. mál kemur fram að heilbrigðisráðherra hefði á fundi nefndarinnar greint frá áformum um „ ... að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minni en ráðgert var í fyrrnefndum drögum að reglugerð. Endanlegar tölur ráðast af fjárlögum næsta árs en miðað er við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“ Breytingarnar áttu að taka gildi 1. febrúar 2017. Þessa afgreiðslu taldi ASÍ ásættanlega.

Ráðherra óskaði síðan eftir umsögnum um endurskoðuð reglugerðardrög í desember 2016. Í umsögn sinni gerði ASÍ athugasemdir við að ekki ætti að lækka kostnaðarþakið í 50.000 kr. á ári eins og ráðherra hafði gefið fyrirheit um heldur 69.700 kr. Í umsögn ASÍ til velferðarráðuneytisins um reglugerðina frá 15. desember 2016 segir m.a.: „Alþýðusambandið áréttar fyrri áherslur sínar um nauðsyn þess að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni og að staðið verði við fyrirheit um að hámarksgreiðsla almennra notenda verði ekki hærri en 50.000 krónur á ári, þ.e. að hámarksgreiðsla sjúkratryggðs almennt í almanaksmánuði skv. 3. gr. reglugerðarinnar verði ekki hærri en 17.600 krónur. Þar af leiðir að hámarksgreiðsla aldraðra, öryrkja og barna verði að hámarki um 11.700 krónur í almanaksmánuði.“

Gildistöku á nýja greiðsluþátttökukerfinu var frestað til 1. maí 2017 og var niðurstaðan sú að við gildistöku kerfisins var kostnaðarþakið 69.700 krónur á ári fyrir almenna sjúklinga og 46.463 fyrir aldraða, öryrkja og börn. Þessu mótmælti ASÍ harðlega með vísan til loforða heilbrigðisráðherra um miðað yrði við að almennt greiðsluþak yrði ekki hærra en 50.000 krónur á ári við gildistöku nýs kerfis.

Í töflunni hér að neðan má sjá dæmi um áhrif breytinganna á kostnaðarþátttöku almennra sjúklinga, lífeyrisþega og barna hjá sérfræðilæknum í kjölfar gildistöku á nýju kerfi þann 1.maí 2017.


Fyrir lá að hækkunin er gríðarleg hjá lífeyrisþegum og umtalsverð hjá almennum sjúklingum. Þjónustan verður hins vegar gjaldfrjáls fyrir börn með tilvísun frá heimilislækni en hækkunin hjá þeim gat orðið meiri en 600% ef þjónusta er sótt án tilvísunar.

Til viðbótar við þetta hækkuðu stjórnvöld þann 1. mars sl. greiðsluþakið um 2% auk þess sem komugjöld á sjúkrahús voru hækkuð um 2,3-3,2%. Þá hækkaði einingarverði til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna um tæp 5% um sl. áramót. Í stað þess að lækka greiðsluþátttökuna í samræmi við það loforð sem gefið var við setningu laga um nýtt greiðsluþátttökukerfi hefur hún því þvert á móti farið hækkandi.

Í dag er greiðsluþátttaka allra sjúklinga of mikil í heilbrigðiskerfinu og við hana bætast t.d. lyf, sálfræðiþjónusta, hjálpartæki og ferðakostnaður. ASÍ leggur því áherslu á að staðið verði við fyrirheit um 50.000 kr. þak almennra sjúklinga og telur tillögu um að gengið verði enn lengra og að þakið verði 35.000 kr. mjög til bóta. ASÍ áréttar stuðning sinn við kerfisbreytinguna í greiðsluþátttökukerfinu en telur núverandi greiðsluþak sem er ríflega 71.000 krónur á ári fyrir almenna sjúklinga of hátt og að gengið hafi verið allt of langt í að fjármagna breytinguna með tilfærslu á kostnaði á milli sjúklingahópa. Einnig er mikilvægt að styrkja heilsugæsluna enn frekar svo tilvísanakerfi sem innleitt hefur verið fyrir börn verði skilvirkt. Að öðrum kosti er verið að mismuna börnum eftir aðgengi þeirra að heimilislækni og skapa hættu á því að fjárhagur foreldra ráði aðgengi barna að nauðsynlegri læknisþjónustu.

Gjaldfrjáls heilsugæsla
Í þingsályktuninni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að kveða á um það í reglugerð að ekki skuli taka gjald af sjúkratryggðum fyrir heilsugæslu samkvæm lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Í 3. gr. laganna segir:
Ráðherra markar stefnu um heilbrigðisþjónustu innan ramma laga þessara. Ráðherra er heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu, m.a. hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni.
Við skipulag heilbrigðisþjónustu skal stefnt að því að hún sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

ASÍ tekur undir með flutningsmönnum tillögunnar og telur þessa breytingu til þess fallna að efla heilsugæsluna sem fyrsta þjónustustigið og stuðla að því að færri fresti læknisheimsóknum vegna kostnaðar.

Dregið verði úr kostnaðarhlutdeild aldraðra og öryrkja við tannlækningar
Alþýðusamband Íslands tekur sömuleiðis mikilvægi þess að endurskoða gjaldskrá vegna almennra tannlækninga fyrir lífeyrisþega. Í svari þáverandi heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um kostnað vegna tannlækninga örorkulífeyrisþega á 144. löggjafarþingi, þingskj. 1286 – 714. mál kemur fram að viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands hafi einungis hækkað einu sinni á tímabilinu frá 2003 til 2015. Hækkunin nemur 5,9% á tímabilinu en hefði þurft að hækka um 90,4% til að halda í við verðlag. Sama gjaldskrá gildir fyrir ellilífeyrisþega. Af þessu er ljóst að hlutdeild lífeyrisþega í tannlæknakostnaði hefur hækkað verulega sl. 15 ár. Þann 1. janúar 2017 voru gerðar breytingar á greiðsluþátttökunni með breytingu á reglugerð nr. 451/2013 en viðmiðunargjaldskrá SÍ er óbreytt. Samkvæmt reglugerðinni áttu lífeyrisþegar með tekjutryggingu almannatrygginga rétt á 75% endurgreiðslu en þeir sem ekki eiga rétt á tekjutryggingu 50% endurgreiðslu. Með reglugerðarbreytingunni verður kostnaðarþátttakan samkvæmt viðmiðunargjaldskrá 75% fyrir allflesta lífeyrisþega. Rétt er að geta þess að þessi breyting er óveruleg og helst í hendur við breytingar á réttindum ellilífeyrisþega í almannatryggingakerfinu sem tók gildi frá sama tíma. Greiðsluþátttaka ríkisins í tannlæknakostnaði jókst einungis fyrir 14% ellilífeyrisþega og 3% örorkulífeyrisþega samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árið 2015. Allflestir lífeyrisþegar sitja uppi með sama kostnað eftir breytinguna.

Úr skýrslu hagdeildar ASÍ um greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu – mars 2016
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun hjá 25 tannlæknum á Höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs 2016 og bar saman verðskrár þeirra við gildandi viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga. Niðurstaðan var sú að gjaldskrár tannlækna voru í lang flestum tilvikum að meðaltali 150-200% hærri en viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga. Þegar skoðaður er munur á lægsta verði tannlækna í könnuninni samanborið við viðmiðunargjaldskrána nemur sá munur í flestum tilvikum 50-100%. Af þessu er ljóst að þrátt fyrir að sjúklingar leiti ódýrustu tannlæknaþjónustu á markaði er munurinn á þeirri gjaldskrá sem Sjúkratryggingar miða endurgreiðslur sínar við og raunverulegri gjaldtöku tannlækna á markaði verulegur og endurgreiðslur til aldraðra og öryrkja því í reynd hlutfallslega mun lægri en reglur Sjúkratrygginga segja til um.

Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 500 milljóna króna framlagi til uppfærslu á gjaldskrá Sjúkratrygginga vegna endurgreiðslna á tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja. Ekki lá fyrir greining á því hversu mikilli hækkun sú fjárhæð mundi skila og enn hefur engin breyting verið gerð á viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga frá árinu 2014.


Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ