Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama

Reykjavík: 03.04.2014
Tilvísun: 201403-0028


Efni: Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama, 328. mál.

Hvað varðar fríverslunarsamninga almennt þá er það skoðun Alþýðusambands Íslands að slíkir samningar skuli ekki eingöngu metnir út frá einangruðum viðskiptalegu hagsmunum sem Ísland hefur af slíkum samningum. Heldur skuli Ísland sem lýðræðisríki reist á stoðum mannréttinda og félagslegs réttlætis ekki ganga til samstarfs um verslun og viðskipti við ríki þar sem stöðu mannréttindamála er verulega ábótavant. Það er skoðun Alþýðusambands Íslands að slíkir samningar séu til þess fallnir að viðhalda ríkjandi ástand í viðkomandi ríkjum þar sem þeir greiða fyrir viðskiptum og framleiðslu sem sækir samkeppnishæfni sína m.a. með því að virt eru að vettugi sjálfsögð grundvallarmannréttindi verkafólks. Þessi skoðun Alþýðusambands Íslands hefur verið til staðar lengi og birtist hún m.a. í umsögn við nýlega fullgiltan fríverslunarsamning við Alþýðulýðveldið Kína (sjá 73. mál á yfirstandandi löggjafarþingi) en þar segir nánar tiltekið að það sé algjört skilyrði af hálfu ASÍ að við gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki verði sett bein og ófrávíkjanleg skilyrði um að viðkomandi ríki viðurkenni og framkvæmi í raun allar grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Hvað varðar bæði þessi ríki sem um ræðir hér þá hafa þau viðurkennt allar helstu grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í báðum tilvikum hefur hins vegar sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunin nú um all nokkurt skeið gert athugasemdir við þessi ríki um að framkvæmd nokkurra grundvallarsamþykkta sé ekki sem skyldi án þess þó að viðkomandi ríki hafi brugðist við ábyrgum hætti. Er þá sérstaklega átt við grundvallarsamþykktir nr. 87 og 98 um frelsi til stéttarfélagsaðildar annars vegar og um gerð kjarasamninga hins vegar. Með vísan í framangreint og sérstaklega þá skoðun Alþýðusambands Íslands að fríverslunarsamningar skuli reistir á stoðum jöfnuðar og mannréttinda, er mælt gegn því að samningurinn verði fullgildur án þess að við hann verði uppfærður á þá leið að aðilar skuldbindi sig til að ræða um stöðu verkafólks og hvernig megi bæta stöðu þess í ríkjunum.


Virðingarfyllst f.h. ASÍ,
Halldór Oddsson hdl.
lögfræðingur hjá ASÍ