Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja

Reykjavík: 4.5 2017
Tilvísun: 201705-0005


Efni: Þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja, 263. mál

Samkvæmt 11. kafla samningsins árétta samningsaðilar skyldur sínar til að virða, efla og framfylgja þeim meginreglum um grundvallarréttindi sem er að finna í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og í áréttingu hennar sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti árið 1998 og yfirlýsingu ILO um félagslegt réttlæti í þágu sanngjarnrar alþjóðavæðingar frá 2008.

ASÍ vekur athygli Alþingis á því að ILO) hefur gert og gerir alvarlegar athugasemdir við framkvæmd Filippseyja á þeim samþykktum sem falla undir yfirlýsingu stofnunarinnar frá 1998. Skv. þeirri yfirlýsingu eru aðildarríki ILO skuldbundin til að virða grundvallarsamþykktir stofnunarinnar um félagafrelsi (87 og 98), bann við nauðungarvinnu (29 og 105), afnám barnavinnu (138 og 182) og bann við mismunun (100 og 111).

Á árinu 2016 voru Filippseyjum sendar beinar fyrirspurnir um framkvæmd vegna samþykkta 87 (félagafrelsi) og 182 (afnám barnavinnu) auk þess sem sérstaklega var fjallað um brot ríkisins gegn samþykkt 87 í nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins það sama ár og ákvörðun þá tekin um að senda til landsins það sem kallað er „direct contacts mission“ en það er með þeim alvarlegustu skerfum sem ákveðin eru í framhaldi ítrekaðra og alvarlegra brota. Þegar þetta er haft í huga og þau alvarlegu mannréttindabrot sem sem Amnesty International vekur athygli á í umsögn sinni, er ekki hægt að fagna því að fríverslun við Filippseyjar sé tekin upp án þess að tryggja með betri hætti en gert er, efndir á þeim skuldbindingum sem lúta að grundvallarréttindum frjálsrar verkalýðshreyfingar, launafólks og almennings. Ákvæði gr. 11.10 eru alls ófullnægjandi í þessu efni auk þess sem beinlínis er þar tekið fram að ágreiningi um efndir þess kafla er ekki hægt að vísa til gerðardóms skv. 13. kafla náist ekki sátt. Með þeim hætti eru mannréttindi sett til hliðar og viðskiptalegir hagsmunir settir þeim framar og í forgang. ASÍ mælir því ekki með samþykkt þessarar þingsályktunar.Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ