Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA og Lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Kólumbíu

 Reykjavík 6.11 2012
Tilvísun: 201211-005 
 
 
 
Efni: Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA og Lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Kólumbíu,122. mál.
 
 
Mál þetta var ekki sent til umsagnar Alþýðusambands Íslands en sambandið telur ríka ástæðu til þess að veita háttvirtu Alþingi umsögn sína. 
 
Samningar þessir kveða á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur auk þess að innihalda ákvæði um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Allt kunna þetta að vera góð markmið en ASÍ leggst engu að síður eindregið gegn staðfestingu þessara samninga eins og þeir liggja fyrir. 
 
Frá 1.1 1986 til 31.12 2011 voru 2.914 fulltrúar kólumbískra verkalýðsfélaga myrtir, þarf af 772 formenn verkalýðsfélaga. Á sama tíma voru skráðar 11.942 hótanir, 290 manndrápstilraunir, 222 mannshvörf, 5.397 líflátshótanir og 1.776 nauðungarflutningar. Það sem af er árinu 2012 hafa 35 verkalýðsleiðtogar verið myrtir, 10 hefur verið reynt að myrða, 342 hefur verið hótað lífláti og 16 hafa verið fangelsaðir. Allt þetta ofbeldi sem ýmist er framið af stjórnvöldum sjálfum eða skipulögðum glæpasamtökum gegn greiðslu frá þeim sem telja hagsmunum sínum ógnað með starfsemi verkalýðsfélaga og kjarasamningum er látið að mestu afskiptalaust. Ofbeldi og glæpir gegnsýra kólumbískt samfélag og stjórnvöld hafa haldið því fram að ofbeldi gegn verkalýðshreyfingunni og forystumönnum hennar sé einungis hluti af því ástandi. Alþjóðleg verkalýðshreyfing, sérfræðingar og þing ILO -   Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru ekki sammála því og telja að um sé að ræða skipulagða baráttu gegn grundvallarmannréttindum launafólks og gegn frjálsri verkalýðshreyfingu.
 
Ísland sem kýs að vera kyndilberi mannréttinda á alþjóðavettvangi getur ekki gert eða verið aðili að samningum um frjáls viðskipti með vöru og þjónustu  sem sprettur úr jarðvegi grófra og viðvarandi mannréttindabrota gegn launafólki og frjálsri verkalýðshreyfingu.  Slíkir samningar styðja ríkjandi ástand í stað þess að vinna gegn því. Yfirlýsing sú sem aðilar gefa í formálsorðum fríverslunarsamningsins um virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum er næsta innihaldslaus þegar brot gegn mannréttindum hafa verið látin viðgangast um áratugaskeið. 
 
ASÍ leggst því eindregið gegn því að Alþingi fullgildi samninga þessa en kjósi Alþingi að gera það engu að síður,  telur sambandið mikilvægt að sú staðfesting geymi fyrirvara um virðingu Kólumbíu fyrir grundvallarmannréttindum launafólks og frjálsrar verkalýðshreyfingar og að Ísland áskilji sér rétt til þess að virða ekki ákvæði samninganna ef vara eða þjónusta sem undir samningana fellur er ekki framleidd eða veitt við mannsæmandi aðstæður launafólks og á grundvelli fullrar virðingar fyrir öllum grundvallarsamþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sáttmálum Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni.  
 
 
 
Virðingarfyllst, 
 
Gylfi Arnbjörnsson,   
forseti Alþýðusambands Íslands