Stefna ASÍ

Þingsályktun um fríverslunarsamning Íslands og Kína

Reykjavík: 12.11.2013       
Tilvísun: 201310-0030


Efni: Þingsályktun um fríverslunarsamning Íslands og Kína, 73. mál.


Alþýðusamband Íslands mótmælir því harðlega að Alþingi staðfesti fríverslunarsamning þann sem gerður hefur verið við Kína. Fyrir liggur að kínversk stjórnvöld viðurkenna ekki mannréttindi og hafa áratugum saman hunsað grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og meinað launafólki að stofna frjáls stéttarfélög til að semja um sín kjör. Með þessum samningi er íslenskum fyrirtækjum og íslensku launafólki ætlað að keppa á jafnréttisgrundvelli við fyrirtæki í Kína, sem þurfa ekki að uppfylla nein þau skilyrði sem þau íslensku þurfa að uppfylla. Afleiðingin af þessum gjörningi er augljós. Hann mun þvinga niður launakjör hér á landi og það sem verra er, þvinga íslensk fyrirtæki til að flytja framleiðslu sína til Kína og selja hana síðan bæði hér og annarsstaðar undir íslenskum merkjum. Það er og hefur verið algjört skilyrði af hálfu ASÍ, að við gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki verði sett bein og ófrávíkjanleg skilyrði um að viðkomandi ríki viðurkenni og framkvæmi í raun allar grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Þegar sá fríverslunarsamningur var í smíðum sem nú er leitað staðfestingar á, gerði ASÍ kröfu til þess að gengið yrði samhliða frá sérstakri yfirlýsingu um vinnumál, ætluðu stjórnvöld sér á annað borð að gera samning um fríverslun. Sú yfirlýsing yrði sambærileg við vinnumálayfirlýsingu þá sem Kína samdi um við Nýja Sjáland varðandi samskipti, dagskrárefni og aðild. Aðildin að samráðsvettvangi yrði þríhliða af hálfu beggja aðila þ.e. skipaður auk stjórnvalda af fulltrúum „most representative“ samtaka launafólks og atvinnurekenda. Vísað yrði með skýrum hætti til Decent Work Agenda   Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) auk þess að vísa til markmiða ILO, grundvallarsamþykkta og grundvallarréttinda. Fyrirheit voru gefin af hálfu fyrrverandi utanríkisráðherra um að frá hvorutveggja, fríverslunarsamningi og yfirlýsingu um vinnumál, yrði gengið samhliða. Það var ekki gert og enn er ósamið um yfirlýsingu um vinnumál og staða til þess að ljúka slíku samkomulagi veik eftir að hafa undirritað fríverslunarsamninginn án nokkurra fyrirvara.

Alþýðusamband Íslands mótmælir því þess vegna harðlega að Alþingi staðfesti fríverslunarsamning þann sem gerður hefur verið við Kína og ítrekar þá afstöðu sem áður hefur komið fram sbr. meðfylgjandi fyrri umsögn og bréf til forseta Íslands.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,  
lögfræðingur ASÍ