Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2019

Reykjavík, 8. júlí 2016
Tilvísun: 201606-0021

Efni: Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2019

Alþýðusamband Íslands fagnar tillögu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2016-2019 sem lögð hefur verið fram.

Eins og fram kemur í athugasemdum sem fylgja þingsályktunartillögunni þá kemur Ísland vel út í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins sem fjallar um jafnrétti kynja. Við trónum þar efst á lista og höfum verið þar í nokkur ár. En skýrslan endurspeglar ekki þann raunveruleika sem við búum við í dag.  Það  eru vankantar á aðferðarfræði ráðsins, meðal annars er ekki tekið tillit til eða spurt um vinnutíma, álag í starfi, skiptingu heimilisstarfa eða ábyrgð á uppeldi barna og umönnun aldraðra þótt rannsóknir sýna fram á að framangreindir þættir hafa mikil áhrif á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Í framkvæmdaáætluninni er kafli merktur B. Vinnumarkaður – Launajafnrétti kynja.

Í maí 2015 var gefin út yfirgripsmikil rannsóknarskýrsla Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði – staðreyndir og staða þekkingar. Skýrslan staðfestir að staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði er ólík þótt framfarir hafi orðið í jafnréttisátt. Fram kemur í skýrslunni að konur séu líklegri til að vinna hlutastörf og hverfi frekar af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum. Tekjur kvenna endurspeglast í lægri lífeyrisgreiðslum sem að stórum hluta eru greiddar úr sameiginlegum sjóðum. Einnig kemur fram að atvinnuþátttaka hér á landi er ein sú mesta sem mælist meðal OECD-ríkja. Vinnuvikan er löng, karlar í fullu starfi vinna að meðaltali 47 klukkustundir á viku og konur 42 klukkustundir á viku. Við bætist ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf sem konur sinna að stórum hluta.

Undir lið B. er einnig fjallað um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum. Mikilvægt er að endurreisa fæðingarorlofskerfið sem hefur verið mörgum fyrirmynd vegna mikillar þátttöku feðra, en á því hefur verið breyting undanfarin ár. Þátttaka feðra hefur dregist saman og framkvæmd fæðingarorlofsins verið gagnrýnd harðlega, sérstaklega hvað varðar upphæðir greiðslna. Þessar breytingar á hámarksgreiðslum hafa haft þær afleiðingar að sífellt færri feður nýta 3 mánaða rétt sinn og fleiri mæður nýta sinn rétt og sameiginlegan rétt.

 

ASÍ bendir á tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skipaður var fulltrúum stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins. Starfshópurinn skilaði skýrslu í apríl sl. og eru þar helstu tillögur eftirfarandi:

  • Foreldrar fái fyrstu 300.000 kr. af viðmiðunartekjum óskertar.
  • Foreldrar fái 80% af viðmiðunartekjum sem eru umfram 300.000 kr.
  • Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði 600.000 kr.
  • Samanlagður réttur foreldra verði 12 mánuðir.

Einnig má geta þess að Hagstofan birti tölur í júní sl. um fæðingar og frjósemi fyrir árið 2015. Þar kemur fram að fæðingartíðni hér á landi hefur aldrei verið lægri en það ár. Gjarnan er talað um að fæðingartíðni þurfi að vera hærri en 2,1 til að viðhalda mannfjöldanum en á Íslandi hefur fæðingartíðni verið lægri en 2,1 nær allar götur frá 1995 ef frá eru talin árin 2008-2011. Síðan þá hefur hún tekið skarpa dýfu niður á við og á síðasta ári, samkvæmt gögnum Hagstofunnar, var fæðingartíðni 1,805 og því aldrei verið lægri.

Mörg lönd mæta lægri fæðingartíðni með því að hvetja til aukinna barneigna m.a. með betri samhæfinu vinnu og fjölskyldu, hækkun barnabóta og betra foreldraorlofi. Umræða um versnandi kjör ungs fólks hér á landi hefur verið áberandi undanfarið. Ljóst er að stuðningur við barnafólk, fæðingarorlof og kostnaður við barneignir og daggæslu er hluti af þeirri umræðu.

Eitt af stærstu verkefnum vinnumarkaðarins er að jafna kjaramun kynjanna og vinna gegn hinni þrálátu kynskiptingu vinnumarkaðarins. Því telur ASÍ mikilvægt að fulltrúar sambandsins sitji í öllum þeim nefndum, vinnuhópum og eða ráðum þar sem fjallað er um og ákvarðanir teknar um stöðu kynja á vinnumarkaði.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur