Stefna ASÍ

þingsályktunartillaga um fjögurra ára samgönguáætlun árin 2007-2010, og þingsályktunartillaga um samgönguáætlun árin 2007-2018, 575

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun árin 2007-2010, 574. mál; og um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun árin 2007-2018, 575. mál.

Almennt fagnar ASÍ því að stefna í samgöngumálum sé mótuð í formi heildstæðra áætlana sem horfa til langs tíma. Hvað varðar þær tvær áætlanir sem nú hefur verið gerð tillaga um á Alþingi – fjögurra ára áætlun 2007-2010 og tólf ára áætlun 2007-2018 vill ASÍ vekja athygli á eftirfarandi:

Umhverfismat áætlana

Umhverfismat fylgir tólf ára áætluninni nú í fyrsta sinn. ASÍ telur brýnt að tekið sé tillit til þeirra ábendinga sem þar koma fram, svo sem um neikvæð áhrif aukinna landflutninga á aðra umferð og vanda tengdan hávaða og svifryki. ASÍ tekur undir þau markmið í fjögur ára áætluninni sem miða að því að taka á þessum vanda.

Sérstök fjármögnun

Það er áhyggjuefni að núgildandi tekjustofnar standi ekki undir nauðsynlegum framkvæmdum. ASÍ telur afar mikilvægt að við rannsókn og þróun á hugsanlegum nýjum tekjustofnum verði unnið út frá forsendum um jafnan aðgang innan grunnnetsins óháð félagslegri stöðu fólks. Ef nýta á markaðsöflin þarf að tryggja að ekki verði árekstrar milli arðsemiskröfu fyrirtækja og félagslegra markmiða.

Tengsl við ríkisfjármál

Útgjöld til samgöngumála geta gegnt lykilhlutverki í ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum. ASÍ telur að útgjöld í þessum málaflokki verði ávallt að taka tillit til almennra aðstæðna í hagkerfinu. Það er sérstaklega vert að gæta þess að lítt skilgreindar heimildir eins og „langtímalán“, „einkaframkvæmd“, eða „ný gjaldtaka“ verði ekki notaðar til að „fegra“ ásýnd ríkisfjármálanna þegar raunverulegs aðhalds kann að vera þörf.

F. h. Alþýðusambands Íslands,

______________

Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ