Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022

Reykjavík 12.2.2018
Tilvísun: 201801-0041


Efni: Þingsályktunartillaga um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, 2. mál

Alþýðusambandið telur framlagningu á langtímastefnumótun í opinberum fjármálum, sem lög um opinber fjármál gera ráð fyrir, mikið framfaraskref og til þess fallna að styrkja hagstjórnina og bæta yfirsýn yfir rekstur hins opinbera. Til þess að fjármálastefnan þjóni tilgangi sínum og veiti nauðsynlegar upplýsingar og aðhald er mikilvægt að framsetning hennar sé skýr og skilmerkileg. ASÍ telur talsvert skorta á til þess að svo sé í fyrirliggjandi stefnu.

Alvarlegustu annmarkarnir eru eftirfarandi:
• Stefnumörkun fyrir tekjur og útgjöld er ekki að finna í stefnunni.
• Forsendur fyrir skuldaniðurgreiðslu eru óútskýrðar. Tölusett markmið um að öllu óreglulegu og einskiptis fjárstreymi skuli varið til niðurgreiðslu skulda eða lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum hefur verið fellt brott. Áfram er þó fjallað um þetta í greinargerð en við það má ætla að skuldbindingin sé veikt.
• Ekki er gerð grein fyrir því hvernig stefnan uppfylli grunngildin um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.
• Greinargerðin með stefnunni er mjög almenn og almennt óljóst hvernig stefna nýrrar ríkisstjórnar endurspeglast í fjármálastefnunni.
• Fjármálastefnan byggir á hagspá frá sl. hausti sem tók mið af fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar.
• Ekki er gerð nein grein fyrir áhrifum af þeirri fráviksspá sem þó er tilgreint að hafi verið gerð vegna vinnu við fjármálastefnuna. Sviðsmyndagreiningu vantar því þrátt fyrir að talað sé um aukna óvissu um þróun efnahagslífsins í stefnunni.

Í álitsgerð fjármálaráðs um stefnuna koma fram ýmsar ábendingar sem ASÍ tekur undir. Fjármálaráð fer með lögbundið hlutverk og því er ætlað að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál. ASÍ telur það andstætt markmiðum laganna, um góða, styrka og ábyrga hagstjórn, að Alþingi hunsi ítrekað ábendingar í umsögnum fjármálaráðs. Mikilvægt er að Alþingi bregðist við ábendingum fjármálaráðs til að stuðla að því að lög um opinber fjármál hafi þau áhrif sem þeim er ætlað.

Alþýðusamband Íslands leggur í mati sínu á stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum áherslu á að hún undirbyggi á hverjum tíma annars vegar hinn efnahagslega stöðugleika sem ver kaupmátt launafólks og hins vegar hinn félagslega stöðugleika sem tryggir velferð og lífskjör. Samspil þessara tveggja þátta er lykilatriði til að skapa grundvöll að sátt og stöðugleika á vinnumarkaði.

ASÍ telur tvísýnt hvort að sú fjármálastefna sem hér er sett fram muni styðja við efnahagslegan og félagslegan stöðugleika á komandi árum sökum þeirra annmarka sem á henni eru. Samkvæmt stefnunni á fyrst og fremst að auka útgjöld með því að draga úr afgangi af ríkisrekstrinum á sama tíma og dregið er úr tekjuöflunaráformum fyrri ríkisstjórnar. Hætt er við áform um að færa ferðaþjónustutengda starfsemi í efra þrep virðisaukaskatts og fyrirhugaðar eru frekari skattalækkanir. Engin áform virðast hins vegar uppi um að styrkja tekjugrunn ríkisins til frambúðar til að standa undir auknum útgjöldum. Ríkisstjórnin ætlar því að draga úr aðhaldi í opinberum fjármálum og getu þeirra til að standa undir útgjöldum til frambúðar. Hætt er við því að ef hægir á í efnahagslífinu munu tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna núverandi útgjöld og við blasir niðurskurður eða aukin skattheimta þvert á hagsveifluna. Einn helsti veikleiki stefnunnar er að í hana vantar greiningu á hagsveifluleiðréttum frumtekjum og frumgjöldum sem veldur því að ekki er hægt að meta aðhaldsstig hennar með fullnægjandi hætti. Þó er ljóst að aðhaldsstigið fer minnkandi og sjálfvirk sveiflujöfnun er veikt. Líkt og fjármálaráð bendir á, vaxa bæði tekjur og gjöld í takt við vöxt í vergri landsframleiðslu.

Mat greiningaraðila á efnahagsþróuninni er samdóma um að toppi hagsveiflunnar hafi verið náð en að áfram verði þó góður vöxtur í hagkerfinu á næstu árum og gerir sú þjóðhagsspá sem stefnan byggir á sömuleiðis ráð fyrir því. Áfram er því nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda sé ekki þensluhvetjandi og sé samstillt peningamálastefnu Seðlabankans. Að öðrum kosti verða afleiðingarnar og viðbrögð Seðlabankans fyrirsjáanleg. Verðbólguþrýstingur eykst, vextir hækka og þrýstingur á krónuna eykst.

Í greinagerð þingsályktunarinnar er fjallað um efnahagsleg úrlausnaratriði. Sú umfjöllun er mjög ómarkviss og felur fyrst og fremst í sér staðhæfingar um stöðu mála en lítið er fjallað um áætlanir stjórnavalda til að bregðast við þessum áskorunum og áhrif þeirra á stefnumótun í ríkisfjármálum. ASÍ vill koma nokkrum atriðum á framfæri varðandi þessa umfjöllun.

Vinnumarkaður
Í umfjöllun um vinnumarkað er fjallað um mikilvægi þess að sátt náist um breytt skipulag við gerð kjarasamninga. ASÍ minnir á að forsenda slíkrar sáttar er að ríkisvaldið miði launasetningu ráðamanna og æðstu stjórnenda við gildandi launastefnu og að stefna í opinberum fjármálum styðji við efnahagslegan og félagslega stöðugleika

Framleiðni og launaþróun
ASÍ lýsir furðu á þeim staðhæfingum sem fram koma í þessum kafla. Minni samkeppnishæfni útflutningsgreina má fyrst og fremst rekja til styrkingar á nafngengi krónunnar síðastliðinn ár en ekki launaþróunar. Þá sýna þær launahækkanir sem verið hafa umfram kjarasamninga á síðustu árum berlega að hlutdeild launafólks í hagvextinum er síst of stór.

Félagsleg velferð og jöfnuður
Í umfjöllun um jöfnuð verður að huga að tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins sem hefur verið veikt á undanförnum árum eins og nýleg skýrsla ASÍ um þróun skattbyrði sýnir. Stefna stjórnvalda í skattamálum hefur í raun unnið gegn áherslu verkalýðshreyfingarinnar á að bæta kjör láglaunafólks sérstaklega. Nauðsynlegt er að bregðast við þessu með því að styrkja tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins.

Búsetuþróun og húsnæðismarkaður
ASÍ saknar þess að ekki sé fjallað um hvernig mæta eigi húsnæðisvanda vegna hækkunar fasteignaverðs sem og húsnæðisskorti sem við blasir á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni. Stjórnvöld ættu að nýta almenna íbúðakerfið til að mæta húsnæðisvanda ungs fólks og lágtekjufólks, sem fyrir liggur að verður verst úti við aðstæður sem þessar. Stofnframlög til almennra íbúða auka framboð af niðurgreiddu húsnæði og vinna gegn hækkun húsnæðisverðs ólíkt mörgum þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til í húsnæðismálum á undanförnum árum sem miðað hafa að því að ýta undir eftirspurn og verðhækkanir. Umtalsverð fjölgun almennra íbúða er skynsamleg efnahagsstjórn og brýnt velferðarmál. ASÍ telur þörfina að lágmarki 1.000 íbúðir á ári næstu fimm árin.

Lýðfræðilegar breytingar
Eitt af þeim efnahagslegu úrlausnarefnum sem rætt er um í stefnunni að muni íþyngja fjármálum hins opinbera til framtíðar eru fyrirséðar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar þegar hægir á fólksfjölgun samhliða því sem árgangar eldri kynslóða verða sífellt stærri hluti mannfjöldans. Í því samhengi má nefna að skynsamleg langtímasýn í efnahagsmálum fæli í sér að nýta þau hagstjórnartæki sem geta haft jákvæð áhrif á aldurssamsetninguna til framtíðar, ss. barnabætur, fæðingarorlof og húsnæðiskerfi sem þjónar ungu fólki.


Henný Hinz,
hagfræðingur ASÍ