Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur

Reykjavík, 12.03.2019
Tilvísun: 201902-0031

Efni: Þingsályktunartillaga um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur, 44. mál

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar tillaga til þingsályktunar um að settur verði á fót starfshópur sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur og geri tillögur að átaki til að auka notkun reglnanna.

Réttur neytenda eins og hann er í dag í tengslum við kaup og skil á vörum er fremur rýr og er yfirleitt versluninni í vil fremur en neytendum. Þörf er á að endurskoða þær reglur sem gilda um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur með það fyrir augum að auka gagnsæi og bæta öryggi og stöðu neytenda öllum til hagsbóta.

Ekki einungis er þetta stórt hagsmunamál fyrir neytendur sem sitja oft uppi með vörur sem nýtast ekki og tapa peningum á sama tíma, heldur er þetta einnig umhverfismál sem snýr að því að vörur séu ekki framleiddar til einskis með tilheytrandi sóun á orku, auðlindum og umhverfi jarðar.

Alþýðusambandið styður þá tillögu að settur verði á fót starfshópur til að festa betur í sessi og endurskoða reglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur. Þá leggur Alþýðusambandið til að nefndin endurskoði reglurnar í víðara samhengi og skoði hvort þörf sé á að uppfæra þær í takt við breytta tíma og þá þróun sem hefur orðið á þessum málum í samfélaginu, bæði hér á landi og erlendis síðan þær voru fyrst gefnar út. Þannig mætti t.d. skoða hvort bæta ætti inn í verklagsreglur að neytendur hefðu kost á að skila vörum og fá peningana til baka í stað inneignarnótu en sum fyrirtæki bjóða upp á þann kost nú þegar, bæði hér á landi og erlendis.

Að lokum telur Alþýðusambandið að fulltrúi launafólks eigi sæti í nefndinni enda sé um að ræða stórt hagsmunamál.


f.h. Alþýðusambands Íslands
Auður Alfa Ólafsdóttir