Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi

Reykjavík 05.03 2019
Tilvísun: 201902-0032

Efni: Þingsályktunartillaga um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi, 184. mál

Alþýðusamband Íslands telur bæði eðlilegt og rétt að til þess að tryggja almannarétt, skipulagða búsetu og fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf á landinu öllu að settar verði reglur um uppkaup lands með það að markmiði að takmarka hve mikið land einstaklingar eða fyrirtæki megi eiga. Það verði gert til þess að tryggja nýtingu landsins í þágu allra landsmanna og sameiginlegra samfélagslegra hagsmuna. ASÍ tekur því heilshugar undir þau sjónarmið sem tilgreind eru undir stafliðum b, c og d.

Hins vegar eru gerðar athugasemdir við staflið a þar sem gert er ráð fyrir að endurskoðun laga og reglugerða um uppkaup á bújörðum og öðru nytjalandi, svo og óbyggðum beinist eingöngu að uppkaupum erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi. ASÍ telur jafn brýnt að slíkar takmarkanir taki einnig til innlendra aðila. Hagsmunir samfélagsins eru hinir sömu hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda aðila. Báðir lúta íslenskum lögum og lögsögu íslenska ríkisins vegna eigna sinna. Þannig getur og á íslenska ríkið að takmarka í þágu sameiginlegra hagsmuna, eignaréttarlegar heimildir allra landeigenda óháð þjóðerni, búestu eða lögheimili.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ