Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um eflingu virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur

Reykjavík, 7. apríl 2015
Tilvísun: 201502-0028

Efni: Þingsályktunartillaga um eflingu virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur, 122. mál
Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni er ennþá umtalsvert atvinnuleysi hér á landi. Þannig var atvinnuleysi í febrúarmánuði sl. 4,6% samkvæmt gögnum Hagstofunnar sem þýðir að um 8.600 einstaklingar voru án vinnu og í atvinnuleit. Þessi niðurstaða er með öllu óásættanleg bæði fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut og samfélagið allt.

Í greinargerðinni er vísað til samstarfs aðila vinnumarkaðarins á síðustu árum við að takast á við samdrátt og atvinnuleysi sem hér varð í kjölfar hrunsins sem skilaði miklum árangri og sýndi að með samstarfi þeirra sem málið varðar og samhentu átaki má ná miklum árangri í þessum efnum. Þar sem byggt er á markvissum og einstaklingsmiðuðum virkniúrræðum. Hér má nefna samstarfsverkefni með yfirskriftinni „Ungt fólk til athafna“, „ÞOR“, „Vinnandi vegur“, „Nám er vinnandi vegur“ og „Liðsstyrkur“, sem hvert með sínum hætti skiluðu miklum árangri og mikilvægum lærdómi. Tekið er undir með tillöguhöfundum að mikilvægt er að byggja frekar á þeim grunni sem lagður hefur verið í baráttunni við atvinnuleysið og kalla til þá aðila sem gleggst þekkja til málanna.

Í ljósi þess sem að framan segir leggur Alþýðusamband Íslands til að þingsályktunin verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ