Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi

Reykjavík, 9. nóvember 2011

           Tilvísun: 201111-0012

 

Efni:  Tillaga til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi,  7. mál

Alþýðusamband Íslands fagnar tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Þær tillögur nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins sem fjalla um atvinnu- og orkumál eru í samræmi við atvinnumálastefnu ASÍ, þar sem áhersla er lögð á sjálfbæran orkubúskap, hreina náttúru og umhverfisvæna framleiðsluferla.

Mikilvægt er að undirstrika að umhverfisvernd og atvinnusköpun geta farið saman en eru ekki endilega andstæður, eins og lögð er áhersla á í hugmyndafræði græns hagkerfis. Ísland hefur sérstaklega mikla möguleika á að ná langt í þessum málaflokki í alþjóðlegum samanburði. Hér er mikið af vannýttum orkuauðlindum og óþrjótandi tækifæri felast í bættri orkunýtingu innanlands bæði hjá fyrirtækjum og heimilum.

ASÍ telur að auðvelt sé að fjölga grænum störfum og um leið efla hagvöxt hér á landi. Í ljósi stöðu efnahagsmála í dag þurfum við að auka verðmætasköpun þjóðarbúsins til að endurheimta megi fyrri lífskjör. Þetta er hægt að gera m.a. með því að auka fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða. Þrátt fyrir að fullvinnsla hafi aukist töluvert í sjávarútvegi er of mikið um hráefnaútflutning og stór hluti af útflutningi á landbúnaðarafurðum eru óunnar afurðir. Í dag er útflutningur þessara afurða með miklum takmörkunum, og því er lykilatriði að bæta aðgengi Íslands að mörkuðum með fullunnar sjávar- og landbúnaðarafurðir.

ASÍ telur jafnframt að umhverfisvænar fjárfestingar gætu lyft sögulega lágu fjárfestingar-hlutfalli Íslands og fjölgað störfum á tímum mikils atvinnuleysis. Einnig er skynsamlegt að byggja græna hagkerfið á hagrænum hvötum og fræðslu til að efla þátttöku almennings í uppbyggingu græns hagkerfis á Íslandi.

Að lokum leggur ASÍ áherslu á mikilvægi samstarfs aðila vinnumarkaðarins og ríkisvalds í þeirri vinnu sem framundan er varðandi uppbyggingu græns hagkerfis á Íslandi.

Virðingarfyllst,

f.h. Alþýðusambands Íslands

Maríanna Traustadóttir

sérfræðingur