Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um dánaraðstoð

Reykjavík: 6.3 2019
Tilvísun: 201903-0006

Efni: Þingsályktunartillaga um dánaraðstoð, 138. mál

Eins og fram kom í fyrri umsögn Alþýðusambands Íslands, þá hefur sambandið ekki mótað sérstaka stefnu varðandi dánaraðstoð. Sú tillaga sem veitt er umsögn um miðar að gagnaöflun til þess að fram geti farið upplýst og opin umræða um þetta viðkvæma mál og það er stutt. ASÍ vill vekja athygli á, að nauðsynlegt er við skoðun þessa málefnis, að huga að réttarstöðu og velferð þess launafólks sem með einum eða öðrum hætti verða þátttakendur í eða áhorfendur að dánaraðstoð.

Það er skoðun ASÍ að ekki sé nægjanlegt að kanna viðhorf heilbrigðisstarfsmanna eins og í tillögunni greinir, heldur að kanna verði og afla gagna um þau áhrif sem dánaraðstoð hefur á starfsmenn, óháð viðhorfi þeirra. Jafnframt þarf að hafa í huga, að dánaraðstoð getur haft áhrif á sálrænt vinnuumhverfi allra þeirra stétta sem að umönnun sjúkra og þjónustu koma og því mikilvægt að kanna og safna upplýsingum þar að lútandi hjá viðeigandi stofnunum í þeim ríkjum þar sem dánaraðstoð er leyfð.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ