Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um byggingu 5.000 leiguíbúða

Reykjavík 16.1.12018
Tilvísun: 201712-0019

Efni: Þingsályktunartillaga um byggingu 5.000 leiguíbúða, 43. mál

Alþýðusambandið hefur á undanförum árum ítrekað bent á þann mikla vanda sem steðjar að á húsnæðismarkaði og nauðsyn þess að móta heildstæða langtímastefnu í húsnæðismálum sem eru eitt helsta lífskjara- og velferðarmál launafólks. ASÍ hefur í því sambandi lagt megin áherslu á uppbyggingu og fjármögnun á félagslegu húsnæðiskerfi með aðkomu ríkis og sveitarfélaga sem tryggir tekjulægri heimilum og ungu fólki viðráðanlegan húsnæðiskostnað og húsnæðisöryggi. Í kjölfar lokunar verkamannabústaðarkerfisins undir lok 10. áratugarins hefur sí vaxandi fjöldi fólks í þessum hópum verið utangarðs á húsnæðismarkaði og búið við viðvarandi óöryggi í húsnæðismálum og húsnæðiskostnað sem er svo hátt hlutfall tekna að af hlýst verulegur fjárhagslegur og félagslegur vandi.

Alþýðusambandið lagð því ríka kröfu á aðkomu stjórnvalda að uppbyggingu á nýju húsnæðiskerfi fyrir þennan hóp í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði vorið 2015. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð samninganna var m.a. lagður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með aðkomu ríkis og sveitarfélaga og fjármögnun á stofnframlögum til byggingar á 2.300 nýjum íbúðum innan þess á samningstímanum. Í kjölfarið voru sett lög um almennar íbúðir sem eru grundvöllur uppbyggingar leigufélaga án hagnaðarsjónarmiða („non profit“) fyrir fólk í tveimur lægstu tekjufimmtungunum. Leigukerfið er m.a. fjármagnað með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögunum sem jafngilda 30% af stofnkostnaði íbúðanna.

Alþýðusamband Íslands mat þörfina fyrir uppbyggingu í hinu nýja kerfi að lágmarki um 1.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin en ríkisstjórnin var ekki tilbúin til að mæta þeirri kröfu og niðurstaðan varð loforð um stofnframlög til bygginga á 2.300 íbúðum á fjórum árum. Mat ASÍ er enn að þörf sé á hraðari uppbyggingu húsnæðis í almanna íbúðakerfinu og hefur ítrekað lagt til að stjórnvöld auki enn frekar framlög til þess verkefnis til að mæta vanda á húsnæðismarkaði.

Virðingarfyllst,

Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ