Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands

Reykjavík: 11.3 2019
Tilvísun: 201902-0033


Efni: Þingsályktunartillaga um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144, 570. mál

Breytingin gerir ráð fyrir því að málefnasvið sjóðsins verði breytt með þeim hætti að við úthlutun 2019 og 2020 verði kallað eftir umsögnum til verkefna og rannsókna sem stuðla sérstaklega að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í íslensku samfélagi, fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrgt kynlíf, klám og ofbeldi sem og ofbeldi í nánum samböndum.

Alþýðusamband Íslands tekur undir mikilvægi þess að styrkir séu veittir til verkefna og rannsókna til fræðslu og forvarna á þessu sviði en hefði talið heppilegra að veita sérstöku fé til þess í stað þess að breyta upphaflegu hlutverki Jafnréttissjóðs Íslands eins og það var samþykkt á 144. löggjafaþingi 2014-2015.

Í upphaflegri þingsályktunartillögu um Jafnréttissjóð, 144. þingi, eru verkefni sem sjóðurinn styrkir skilgreind með rýmri hætti. Sem dæmi hljóðar a. liður svo „verkefni sem eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.“
Alþýðusambandið fagnar því að #Metoo hreyfingin, sem afhjúpaði kynferðislega og kynbundna áreitni á Íslandi, ekki síst á vinnumarkaði, þar sem fjöldi kvenna steig fram og lýsti reynslu sinni verði til þess að vekja athygli á því ofbeldi og áreitni sem ekki síst þrífst í skjóli valdaójafnvægis kynjanna. Því leggur Alþýðusambandið til að styrkveitingar (í samræmi við liði d., e., f. og g.) verði ekki takmarkaðar við fræðslu og forvarnir.

Alþýðusambandið leggur því til að tillagan verði orðuð með almennari hætti til að hlutverk Jafnréttissjóðs haldist óbreytt en að mögulegt verði engu að síður að styrkja verkefni sem með einhverjum hætti tengjast kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Alþýðusambandið gerir ekki athugasemdir við breytta stjórnskipan og að stjórnsýsla sjóðsins sé færð til Rannís.

Virðingarfyllst,
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir,
framkvæmdastjóri ASÍ