Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Reykjavík 13.02. 2015
Tilvísun: 201501-0018

Efni: Þingsályktunartillaga um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 244. mál
Alþýðusamband Íslands hefur frá upphafi lýst yfir ánægju sinni með að ráðist hafi verið í gerð áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Sjálfbær nýting auðlinda landsins er þjóðhagslega mikilvæg og er grunnur að samfélagslegri velferð og bættum lífsskilyrðum sem verkalýðshreyfingin berst fyrir.
ASÍ hefur einnig lagt ríka áherslu á að mikilvægt sé að standa vörð um þau faglegu vinnubrögð sem einkennt hafa þá miklu og löngu undirbúningsvinnu sem að baki Rammaáætlunar liggur. Því hefur ASÍ stutt þær tillögur sem koma frá verkefnisstjórninni á hverjum tíma.

Verkefnisstjórn lagði til á síðasta ári, að undangengnum athugun á tiltækum rannsókna-niðurstöðum að Hvammsvirkjun yrði færð í nýtingarflokk, þá tillögu studdi ASÍ í umsögn sinni dags. 07.05.2012.
Breytingartillagan, sem hér um ræðir, leggur til að Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun verði færðar úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk. Samkvæmt niðurstöðum verkefnisstjórnar 3. áfanga er ennþá óvissa um afdrif laxfiska á svæðinu. Telur verkefnisstjórnin að til þess að hægt verði að taka afstöðu til þessara virkjanakosta þurfi að liggja fyrir upplýsingar um mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskistofna. ASÍ leggur til að hraðað verði rannsóknum á svæðinu svo hægt verði að taka faglegar ákvarðanir um ofangreinda virkjunarmöguleika.
Núverandi verkefnisstjórn hefur ekki fjallað efnislega um Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Einnig hefur komið fram að verkefnisstjórn 2. áfanga lauk ekki umfjöllun sinni um Hagavatnsvirkjun og hefur því Hagavatnsvirkjun aldrei fengið fullnægjandi umfjöllun í verkefnisstjórn rammaáætlunar, hvorki í 2. áfanga né 3. áfanga.

Að mati ASÍ er nauðsynlegt að hver virkjanakostur fái þá umfjöllun há verkefnisstjórn, byggða á faglegum rannsóknarniðurstöðum, sem vera ber áður en lagt er til að færa einstaka virkjanakosti úr einum flokki yfir í annan. Æskilegt væri að verkefnisstjórn 3. áfanga afgreiddi Skrokkölduvirkjun, að undangengnum rannsóknarniðurstöðum, þar sem fyrri verkefnisstjórn lagið til að hún færi í nýtingarflokk.
Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að Alþingi styðji þá breiðu sátt um fagleg vinnubrögð sem einkennt hefur alla vinnu í tengslum við undirbúning áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og mælist því til um að tillögur verkefnisstjórnar á hverju tíma séu virtar.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur