Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um breytingu á fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022

Reykjavík 6.6.2019
Tilvísun: 201906-0004

Efni: Þingsályktunartillaga um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, 953. mál

Alþýðusamband Íslands hefur talið að sú umjörð sem sett var um langtímastefnumótun með hliðsjón af grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi, með setningu laga um opinber fjármál, hafi verið mikið framfaraskref sem gæfi tækifæri til bættrar hagstjórnar og góðrar yfirsýnar yfir rekstur hins opinbera og stöðu opinberra fjármála. Liður í því er framlagning fimm ára fjármálastefnu ríkisstjórnar við upphaf kjörtímabils sem stjórnvöld eru bundin af.

Við framlagningu núgildandi fjármálastefnu og í umfjöllun um fjármálaáætlanir og fjárlög undangenginna ára sem byggt hafa á stefnunni hefur ASÍ ítrekað bent á þá annmarka sem innbyggðir eru í stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum. Afkoma ríkissjóðs í uppsveiflu síðustu ára hefur einkum byggst á tímabundinni aukningu tekna vegna mikilla umsvifa á hagvaxtarskeið sem á sér fá fordæmi. Sé horft framhjá áhrifum þess hefur rekstur ríkisins í reynd verið í járnum undanfarin ár og lítið mátt úr af bregða til þess að markmið stefnunnar næðu ekki fram að ganga. Samhliða þessu hafa tekjustofnar markvisst verið veiktir og stjórnvöld látið hjá líða að sækja auknar tekjur. ASÍ hefur gagnrýnt þessa stefnumótun og þá hagstjórn sem hún felur í sér og haft uppi varnaðarorð um að afleiðingarnar verði þær að þegar hægir á í efnahagslífinu muni tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna nauðsynleg útgjöld og við muni blasa aðhald og niðurskurður í ríkisrekstrinum og/eða skattahækkanir þvert á hagsveifluna. Þetta er sú staða sem nú er uppi.

Núgildandi fjármálastefna og framlagðar fjármálaáætlanir hafa byggt á fyrirliggjandi efnahagsspám sem gert hafa ráð fyrir samfeldum hagvexti frá árinu 2011 til ársins 2024 eða í 14 ár samfellt. Þótt horfur hafi þar til nýlega ekki gefið annað til kynna hefði með hliðsjón af grunngildum laga um opinber fjármál verið eðlilegt að gera ráð fyrir því m.a. út frá sögulegri reynslu að þessar forsendur gætu breyst og haft áhrif á rekstur og afkomu hins opinbera. Ekkert mat hefur hins vegar legið fyrir um hvernig gildandi fjármálastefna og framlagðar fjármálaáætlanir stæðu af sér breyttar forsendur, hver áhrif þeirra yrðu á ríkissjóð og síðast en ekki síst hvernig stjórnvöld hafi í hyggju að bregðast við ef aðstæður breytast.

Fjármálaráð sem hefur lögbundið hlutverk við mat á fjármálastefnu og fjármálaáætlunum hefur í umsögnum sínum einnig dregið upp með skýrum hætti annmarka stefnunnar og varað stjórnvöld við þeirri stöðu sem hún geti leitt af sér. Fjármálaráð hefur sömuleiðis kallað eftir því að sett væri fram skýrari mynd af áhrifum breyttra forsenda á afkomu hins opinbera og möguleg viðbrögð. Þessar ábendingar hefur Alþingi ítrekað hunsað sem ASÍ telur andstætt markmiðum laga um opinber fjármál, um góða, styrka og ábyrga hagstjórn.

Stjórnvöldum er því nauðugur einn kostur nú að leggja fram breytingu á þingsályktun um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022 til að bregðast við breyttum forsendum. ASÍ telur afar óheppilegt að í fyrsta sinn sem reynir á þanþol fjármálastefnunnar og þar með framkvæmd laga um opinber fjármál í reynd skuli endurskoðun á langtímastefnumótun ríkisfjármála sem endurspeglast í fjármálastefnunni reynast nauðsynleg. Hætta er á að slíkt dragi úr tiltrú á gildi fjármálastefnu stjórnvalda til framtíðar.

Endurmat á afkomuhorfum hins opinbera til næstu fimm ára skv. nýrri þjóðhagsspá gefur til kynna að afkoma ríkissjóðs versni um 35-40 milljarða á ári á tímabili stefnunnar. Tillaga til þingsályktunar að endurskoðaðri fjármálastefnu gerir ráð fyrir að ráðist verði í mótvægisaðgerðir sem verði á bilinu 7-25 milljarðar árlega til að bæta afkomuna og varna því að halli myndist á ríkissjóði. Ekki liggur fyrir í hverju þessar mótvægisaðgerðir felast en þær koma til viðbótar þeim aðhaldsaðgerðum sem þegar eru áformaðar samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun frá því í apríl síðastliðnum. Líkt og ASÍ benti á í umsögn sinni um áætlunina er þar sett fram almenn aðhaldskrafa á stofnanir ríkisins á tímabilinu og kaup á tilteknum vörum og þjónustu eru ekki verðbætt með tilliti til þróunar launa og verðlags sem þýðir í reynd raunlækkun á framlögum sem stofnanir munu að óbreyttu þurfa að mæta með aðhaldi í rekstri og/eða niðurskurði á þjónustu. Þar að auki nema launabætur til stofnanna á árunum 2020-2022 einungis 0,5% umfram verðlag í stað 1,5%. Af þessu leiðir að verði árleg kaupmáttarþróun ríkisstarfsmanna umfram 0,5% á tímabilinu, sem er langt undir sögulegu meðaltali, er ráðuneytum gert að mæta því með aðhaldi. Forsendur og áhrif þessarar aðhaldsaðgerðar eru mjög óljósar og engin grein gerð fyrir því í áætluninni hvernig hún er tilkomin og hversu líklegt er að hún standist. Aðhald af þessum toga bitnar alltaf þyngst á heilbrigðis- og velferðarþjónustunni þar sem laun vega þungt í rekstrinum.

Í greinagerð tillögu til þingsályktunar um breytingar á gildandi fjármálastefnu er fjallað um að útgjaldaáhrif hagrænna breytinga komi einkum fram í auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingarsjóðs og Ábyrgðasjóðs launa sem lendi alfarið á ríkissjóði. Eins og ASÍ hefur áður vikið að í umsögnum sínum er núverandi fyrirkomulag fjármögnunar vinnumarkaðssjóðanna sem fjármagnaðir eru með tryggingargjaldi og ætlað að standa undir tilteknum réttindum launafólks óheppilegt. Sjóðirnir eru nú hluti af A-hluta ríkissjóðs sem leiðir til þess að þegar staða sjóðanna er góð, sem er jafnan í uppsveiflu, skilar jákvæð afkoma þeirra sér í bættri afkomu ríkissjóðs eins og raunin hefur verið síðustu ár. Að sama skapi leiðir neikvæð afkoma sjóðanna í efnahagssamdrætti til þess að afkoma ríkissjóðs versnar þegar ríkið þarf að „endurgreiða skuld“ við sjóðina. Eðlilegar væri að sjóðirnir væru sjálfstæðir þannig að þeim væri gert kleift að gera áætlanir um fjármögnun réttinda til framtíðar og safna í varasjóð þegar vel árar sem er einnig skynsamleg hagstjórn.


ASÍ áréttar fyrri afstöðu sína um mikilvægi þess að fjármálastefna og áætlanir í opinberum fjármálum endurspegli þau loforð sem stjórnvöld hafa gefið launafólki í tengslum við nýafstaðna kjarasamninga og að fyrirheit um skattkerfisbreytingar til handa launafólki skili sér án tafa. Áformaðar breytingar mega ekki verða til þess að draga úr getu ríkissjóðs til þess að standa undir heilbrigðis- og velferðarþjónustunni og tryggja uppbyggingu nauðsynlegra samfélagsinnviða eða leiða til aukinna notendagjalda og nefskatta. Verkalýðshreyfingin mun aldrei samþykkja að hinni félagslegu framþróun sé ógnað með því að grundvallarstoðir velferðarkerfisins séu nýttar til þess að jafna sveiflur í rekstri hins opinbera.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ