Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um bætt skattskil

Reykjavík, 22. nóvember 2012.
Tilvísun: 201211-0001
 
 
Þingsályktunartillaga um bætt skattskil, 51. mál.
 
Alþýðusamband Íslands fagnar þeirri tillögu sem fram kemur í þingsályktunartillögunni um að unnin verði „aðgerðaáætlun um bætt skattskil sem feli í sér aukið skatteftirlit, skattrannsóknir og markviss viðbrögð gegn undanskotum frá sköttum.“ Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hafa að undanförnu komið fram vísbendingar um að undanskot frá skatti gætu verið að aukast. Er í því sambandi m.a. vísað til upplýsinga og lærdóma sem draga má af átakinu „Leggur þú þitt af mörkum?“ sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Samtök atvinnulífsins (SA) og ríkisskattstjóri stóðu sameiginlega að sumarið 2011 í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga 5. maí s.á. Niðurstöður þess sýndu  fram á að margt er athugunarvert við bókhald, tekjuskráningu og skattskil fjölmargra lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Skil á staðgreiðslu voru röng í mörgum tilvikum, svo og skil á gjöldum til lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Auk þess reyndust mörg fyrirtæki vera með óskráða starfsmenn á launum. Að mati þeirra sem stóðu að átakinu er tap samfélagsins bara vegna vangreiddra skatta og annarra gjalda fyrirtækja með undir 1 milljarð í veltu á ári um 14 milljarðar árlega. Átak þessara sömu aðila fór af stað að nýju á sumarmánuðum 2012 en í lítillega breyttri mynd. Sú framhaldsathugun gefur til kynna að svört atvinnustarfsemi fari heldur vaxandi og sýnist vera verulegt vandamál í ferðaþjónustu. Þá er ástandið í mannvirkjagerð og byggingastarfsemi litlu betra. Mörg dæmi eru um að starfsmenn séu á duldum launum og jafnframt á atvinnuleysisbótum. Þá hefur einnig komið fram að fyrirtæki eru rekin án þess að hafa tilskilin leyfi.
Eðli málsins er erfitt að meta tap samfélagsins af þeirri brotastarfsemi sem hér er til umfjöllunar, en óhætt er að fullyrða að það skiptir tugum milljarða á ári hverju.
 
Afstaða Alþýðusambands Íslands
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á 40. þingi ASÍ í október sl..:
„40. þing ASÍ lýsir miklum áhyggjum yfir aukinni svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki, m.a. í ferðaþjónustu, garðyrkjurækt, ýmiskonar persónulegri þjónustu og byggingariðnaði. Fyrirtæki og einstaklingar sem taka þátt í slíku valda alvarlegum og víðtækum skaða fyrir samfélagið, atvinnulífið og réttindi launafólks. Þingið lýsir jafnframt yfir þungum áhyggjum sínum yfir misnotkun á mikilvægum réttindum launafólks í atvinnuleysisbótakerfinu í þessu sambandi.
40. þing ASÍ telur afar mikilvægt að verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og stjórnvöld sameinist um að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflakk, m.a. þar sem þeir sem standa að slíkri refsiverðri starfsemi verð dregnir til ábyrgðar og beittir þungum viðurlögum.“
Alþýðusambandið árétta að svört atvinnustarfsemi og kennitöluflakk eru nátengd og allt of útbreidd fyrirbæri í íslensku atvinnulífi sem mikilvægt er að vinna gegn með öllum tiltækum ráðum. Slík starfsemi hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt, atvinnulífið og launafólk og veldur þannig miklu samfélagslegu tjóni:
- Sameiginlegir sjóðir landsmanna verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Afleiðingin af slíku getur aðeins orðið sú að leggja þarf auknar álögur á heiðarlegt fólk og fyrirtæki og/eða niðurskurð í mikilvægri samfélagsþjónustu s.s. á sviði heilbrigðis- mennta- og velferðarmála.
- Skekkir samkeppnisstöðu heiðarlegra fyrirtækja sem standa skil á sínu gagnvart samfélaginu og hefur þannig einnig bein og óbein áhrif á starfsmenn þeirra. Þá snertir hún með beinum hætti hag þeirra birgja sem ekki fá greitt fyrir sína vöru og þjónustu.
- Skerðir kjör og réttindi launafólks sem starfa hjá fyrirtækjum  sem stunda slíka iðju, með beinum og óbeinum hætti. Það gildir um laun og önnur starfskjör og ýmis félagsleg réttindi.  Slík starfsemi hefur einnig skaðleg og oft þungbær fjárhagsleg áhrif á einstaklinga sem eiga viðskipti við slík fyrirtæki. 
Það er í ljósi framangreinds sem Alþýðusamband Íslands hefur á undanförnum árum  lagt ríka áherslu á að stemmt verði stigum við svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki með öllum tiltækum ráðum. ASÍ lagði áherslu á að fá inn í yfirlýsingu stjórnvalda í maí 2011 fyrirheit um aðgerðir gegn slíkri háttsemi fyrirtækja og einstaklinga.  Alþýðusambandið lítur á baráttuna gegn svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki sem einn mikilvægasta þáttinn í endurreisn atvinnulífsins og fyrir bættu siðferði í atvinnulífinu.
 
 
Hvað er til ráða?
Eins og áður hefur komið fram var Alþýðusambandið virkur þátttakandi í sameiginlegu átaki ASÍ, SA og RSK með yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum?“ Það er mat Alþýðusambands Íslands að reynslan af því átaki gefi tilefni til að halda áfram samstarfi þessara aðila, að teknu tilliti til þeirrar reynslu sem af því fékkst. Rökin fyrir slíku samstarfi eru að þar komi saman fulltrúar þeirra aðila sem málið varðar mestu, þ.e. launafólks, fyrirtækjanna og samfélagsins alls. Jafnframt er mikilvægt að endurmeta áherslur, umfang, skipulag og úrræði sem hægt er að beita í slíku samstarfi. Hvað varðar áherslur telur Alþýðusambandið mikilvægt að leggja upp með að aðstoða og leiðbeina þeim sem vilja vera með hlutina í lagi við að ná því markmiði. Um leiði verða að vera til staðar fyrir skattayfirvöld skjótvirk og árangursrík úrræði gagnvart meðvitaðri og ítrekaðri brotastarfsemi. En á það hefur vantað að mati RSK.  Þá telur ASÍ rétt að samstarfið verði byggt á rammasamningi aðila til þriggja ára þar sem helstu markmið og áherslur eru settar fram um leið og tækifæri gefast til að bæta og þróa samstarfið innan rammans. Þannig er hægt að skapa ákveðna samfellu og tryggja betur eftirfylgni en þegar um stutt og tímabundin átaksverkefni er að ræða. 
Þá fagnar Alþýðusambandið þeirri vinnu sem nú er í gangi á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem hefur að markmið að stemma stigu við kennitöluflakki og bæta almennt lagaumhverfið varðandi félög með takmarkaða ábyrgð, þ.e. hlutafélög og einkahlutafélög. Í því starfi er m.a. horft til skilyrða varðandi stofnsetningu slíkra félaga, starfsemi þeirra og hvernig megi koma í veg fyrir misnotkun á þessum félagsformum og loks, hvernig á að standa að sliti slíkra félaga. Vænta má tillagna í þessum efnum áður en langt um líður og telur ASÍ ástæðu til að ætla að þar verði að finna umtalsverðar réttarbætur sem sporna gegn kennitöluflakki og misnotkun með félög með takmarkaða ábyrgð.
 
Í ljósi framanritaðs styður Alþýðusamband Íslands eindregið þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar. Mikilvægt er að sú vinna hefjist sem fyrst, þar sem lögð verið áherslu á þétt samstarf við þá sem helst hafa hagsmuna að gæta, þ.e. fulltrúa launafólks og fyrirtækja, jafnframt því starfi sem nú er í gangi á vettvangi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um tengt efni.
 
Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ