Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um atvinnulýðræði

Reykjavík: 9.12.2013 
Tilvísun: 201311-0021

 

Efni: Tillaga til þingsályktunar um atvinnulýðræði, 121. mál.

Alþýðusamband Íslands styður ekki sjónarmið um beina þátttöku og ábyrgð starfsmanna á rekstri þeirra fyrirtækja sem þeir vinna hjá. ASÍ hefur um árabil tekið þátt í samstarfi Evrópskrar verkalýðshreyfingar um atvinnulýðræði. Þar hafa þau sjónarmið sem byggja á formlegu samráði og upplýsingaskyldu atvinnurekenda og launafólks ráðið för og hefur ASÍ stutt þá stefnu. ASÍ telur mikilvægt að þeim skyldum sem atvinnurekendur takast á herðar í þessu efni sé fylgt eftir í framkvæmd. Það á meðal annars við hvað varðar upplýsinga- og samráðsskyldu vegna meiriháttar breytinga í starfsemi og vegna fyrirhugaðra hópuppsagna.

Ef vel er að verki staðið má ná verulegum árangri við breytingar í starfsemi og ekki síður við að koma í veg fyrir uppsagnir fari samráð af stað á réttum tíma. Jafnframt vekur ASÍ athygli á því, að undanfarin ár hefur verulegt átak verið gert til þess að byggja upp og styðja við hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustöðum. Hlutverk þeirra á íslenskum vinnumarkaði og raunar á norrænum einnig er mikilvægt í þessu efni og stafar það fyrst og fremst af mikilli þátttöku í stéttarfélögum og víðtæku gildi kjarasamninga. Þessi réttarstaða er önnur og betri en víðast hvar annarsstaðar og skýrir m.a. hvers vegna ekki er sérstök þörf á því að Alþingi geri tillögur um atvinnulýðræði á vinnustöðum hér á landi. ASÍ tekur ekki afstöðu til þess hvort og hvernig byggja megi upp atvinnulýðræði meðal nemenda í skólum hér á landi en bendir á að um gerólík svið samfélagsins er að ræða.

 


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,  
lögfræðingur ASÍ