Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun)

 Reykjavík, 9. 11 2011

 

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

 

Alþýðusamband Íslands fagnar tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það hefur verið skoðun ASÍ að nauðsynlegt sé að fyrir liggi skýr og markviss stefna um sjálfbæra nýtingu og verndum auðlinda, eða eins og segir í atvinnustefnu sambandsins:

 

„Það er sjálfsagt að nýta þá vatnsorku og jarðhita sem landsmenn eiga til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi. Það væri hins vegar óskynsamlegt að veita leyfi fyrir frekari nýtingu áður en stefna um nýtingu og verndun auðlinda liggur fyrir.“

 

Í ljósi þessa lýsir ASÍ yfir ánægju með að ráðist hafi verið í gerð áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það er mat sambandsins að áætlunin sem liggur fyrir, auk fylgigagna, sé á heildina litið faglega unnin og sett fram á mjög skýran og aðgengilegan hátt. Virkjunarkostir á viðkomandi svæðum eru flokkaðir í orkunýtingarflokka, verndarflokk eða biðflokk og styður sambandið almennt þær áherslur sem fram koma í tillögunni.

Það er mat Alþýðusambandsins, eftir umræðu innan sinnan vébanda, að knýjandi þörf er að ná breiðri samstöðu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Því leggur ASÍ áherslu á að tillagan til þingsályktunar fari óbreytt til meðferðar hjá Alþingi þar sem leitast er við að koma til móts við mismunandi sjónarmið og viðhorf ólíkra hópa sem láta sig málið varða.

Nýta ber þá vatnsorku og jarðhita sem landsmenn eiga til uppbyggingar á fjölbreytilegu og samkeppnishæfu atvinnulífi og almennt ber að skapa sem jöfnust skilyrði fyrir ólík fyrirtæki til að nýta með hagkvæmum hætti auðlindir þjóðarinnar í samræmi við niðurstöður áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. ASÍ telur að Ísland geti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd hvað varðar grænt hagkerfi.

Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á samvinnu ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins í þeirri vinnu sem framundan er varðandi vernd og orkunýtingu landsvæða. Hún er mikilvæg þar sem hafa ber í huga að auðlindir fallvatns og jarðvarma verður að ráðstafa af kostgæfni í ljósi þess að þær eru takmarkaðar.

Sjálfbær nýting auðlinda landsins er þjóðhagslega mikilvæg og er grunnur að samfélagslegri velferð og bættum lífsskilyrðum landsmanna sem verkalýðshreyfingin berst fyrir.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Alþýðusambands Íslands

 

Maríanna Traustadóttir

sérfræðingur