Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Reykjavík, 22. febrúar 2011

Tilvísun: 201101-0037

 

Efni: Þingsályktunartillaga um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, 334. mál

ASÍ fagnar þingsályktunartillögunni og telur að þar komi fram aðgerðir sem vinna að því að ná fram markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Er það mat ASÍ að tillagan sem liggur fyrir sé sett fram á greinagóðan hátt, jafnréttisáætluninni er skipt upp eftir málaflokkum og áherslum þar sem fram koma mælanleg markmið fyrir hverja aðgerð og því auðveldara að meta árangur eftir atvikum.

Atriði þingsályktunartillögunnar sem ASÍ tekur sérstaklega undir eru eftirfarandi:

·Kafli B - grein 15 og 16, aðgengi kvenna að fjármagni til stofnunnar fyrirtækja og að endurvekja á lánatryggingasjóð kvenna.

·Kafli C – grein 20, hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnanna

·Kafli D – grein 24, forvarnir gegn vændi

·Kafli G – grein 35, mikilvægi kynjasjónarmiða hvað varðar loftlagsmál

Í stefnu ASÍ í jafnrétti kvenna og karla frá árinu 2005 er eftirfarandi: „Eitt af hlutverkum verkalýðshreyfingarinnar er að fylgja eftir markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það felur m.a. í sér að komið verði á og viðhaldið jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins.“

Með framangreint að leiðarljósi vill ASÍ vekja sérstaka athygli á nokkur atriði sem fram koma í tillögunni og vonast að tekið verði tillit til í lokavinnslu áætlunarinnar í jafnréttismálum til fjögurra ára.

Kafli B – Vinnumarkaður – kynbundinn launamunur

Í grein 10 er fjallað um framkvæmdaáætlun gegn kynbundnum launamun og eru talin upp sjö mismunandi verkefni til að fylgja því markmiðið eftir. Alþýðusamband Íslands telur nauðsynlegt að þar sé þess gætt að aðilar vinnumarkaðarins eigi fulltrúa í öllum þeim

nefndum og ráðum þar sem við á. ASÍ telur það vera forsenda til þess að sátt ríki um niðurstöður nefnda/ráða og framkvæmd í ljósi þeirra.

Grein 13 fjallar um fæðingarorlof feðra og að gerð verði könnun á töku feðra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu ungra foreldra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Í ljósi skerðingar undanfarinna ára á fæðingarorlofinu þá leggur ASÍ til að könnunin nái til beggja foreldra, feðra og mæðra og á stöðu ungra foreldra eftir að fæðingarorlofstímabilinu lýkur.

Samantekt á stöðu kvenna eftir bankahrun sem gerð var á vegum jafnréttisvaktarinnar að frumkvæði Jafnréttisráðs leiddi í ljós m.a. að hópur ungra mæðra sem eru án atvinnu eru „týndar“ í kerfinu. Eftir að fæðingarorlofstímabilinu lýkur og dagvistun fyrir börn undir 2 ára aldur er ekki í boði, þá hafa þessar mæður ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Kafli D - Kynbundið ofbeldi

Í kaflanum eru settar fram þrjár aðgerðaráætlanir – greinar 21, 22 og 23 sem snúa að kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. ASÍ telur mikilvægt að allt lagaumhverfi málaflokksins sé skýrt og skilvirkt. Kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi hefur áhrif á atvinnuþátttöku kvenna og vellíðan þeirra í vinnunni. Aðilar vinnumarkaðarins gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn kynferðislegu áreiti á vinnustað, sem m.a. felur í sér fræðslu í málaflokknum.

Kafli E – Menntir og jafnrétti

Grein 29 fjallar um menntun í starfsgreinum sem teljast annaðhvort kvennagreinar eða karlagreinar samkvæmt hefð. Eitt af einkennum íslensks vinnumarkaðar er að hann er mjög kynskiptur eftir starfsgreinum og er það einnig ein forsenda fyrir kynbundnum launamun.

ASÍ hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar og er áherslan á jöfn tækifæri til menntunar óháð búsetu eitt af meginmarkmiðum verkalýðshreyfingarinnar. Þekking eykur hæfni einstaklinga á vinnumarkaði og nýtist þannig þeim, atvinnulífinu og samfélaginu öllu og því er mikilvæg krafan um jöfn tækifæri til að velja sér nám og störf óháð kyni.

Kafli H – Eftirfylgni og endurskoðun

Greinar 37 og 38 fjalla um eftirfylgni og endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar. Þar er sett fram tillaga að jafnréttisfulltrúar ráðuneyta annist eftirfylgni ásamt Jafnréttisstofu og sérfræðingi Stjórnarráðsins í jafnrétti kynjanna.

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er í 9. grein fjallað um hlutverk Jafnréttisráðs, þar segir eftirfarandi: „Jafnréttisráð skal starfa í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og vera [ráðherra]1) og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.“

Í ljósi ofangreinds leggur ASÍ því til að jafnréttisráð í samvinnu við Jafnréttisstofu annist einnig eftirfylgni og endurskoðun framkvæmdaráætlunarinnar. Jafnréttisráð er skipað fulltrúum aðilum vinnumarkaðarins, félagasamtökum og stofnunum sem láta sig jafnrétti kvenna og karla varða og hefur þekkingu og hæfni sem til þarf í verkefnið.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Maríanna Traustadóttir,

jafnréttisfulltrúi ASÍ