Stefna ASÍ

Þingsályktun um úttekt á gjaldmiðilsmálum

Reykjavík 25.03.2010

Tilvísun: 201003-0012

Efni: Tillaga til þingsályktunar um úttekt á gjaldmiðilsmálum, 167. mál

Alþingi samþykkti á síðasta ári eftirfarandi þingsályktunartillögu: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og megin hagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar um þingsályktunartillöguna segir m.a.: Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í báðum þingsályktunartillögunum sem til umfjöllunar voru og gera ráð fyrir að Ísland leiti á fyrstu stigum viðræðna eftir sérstöku samkomulagi við ESB, og eftir atvikum evrópska seðlabankann, sem verið gæti stuðningur á næstu missirum við íslensku krónuna meðan á aðlögunarferli Íslands stæði. Slíkt gerði Íslandi síðan kleift að ganga inn í samstarf ESB á sviði efnahags- og peningamála (ERM II) og taka loks upp evruna.“

Þetta er í samræmi við afstöðu Alþýðusambands Íslands en á ársfundi sambandsins haustið 2008 var ályktað um mikilvægi þess að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og stefndi að því að taka upp evru svo fljótt sem kostur væri.

Nú er þessi vinna hafin og Ísland búið að senda inn aðildarumsókn og allt bendir til þess að formlegar aðildarviðræður geti hafist fljótlega. Þetta mikilvæga mál er því í eðlilegum farvegi í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis.

Alþýðusamband Íslands telur ekki þörf á sérstakri úttekt á gjaldmiðilsmálum og mælir gegn samþykkt þingsályktunartillögunnar.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ