Stefna ASÍ

Frumvarp um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins

Reykjavík, 21. janúar 2010

Tilvísun: 200912-0038

 

Þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, 277. mál

Umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, 277. mál. Lagt fyrir 138. löggjafarþing 2009-2010.

Hér verður látið duga að fjalla um þann þátt frumvarpsins sem varðar sérstaklega vinnumarkaðinn, vinnurétt og réttindi launafólks, og kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að leitað verði allra leiða til að koma í veg fyrir að frjáls þjónustuviðskipti á evrópska efnahagssvæðinu og lögleiðing þjónustutilskipunarinnar leiði til félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði. Um aðra þætt, s.s. er varða almannaþjónustu og þær ógnir sem að henni steðja, er einnig fjallað í meðfylgjandi umsögn og greinargerð Alþýðusambandsins um þjónustutilskipunina frá 22. janúar 2007.

Þá er rétt að fram komi að þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda á öllum stigum málsins hefur mjög skort á að haft hafi verið nægilegt samráð við verkalýðshreyfinguna vegna undirbúnings frumvarpsins. Þá hafa ábendingar og athugasemdir Alþýðusambandsins verið að engu hafðar.

Helstu niðurstöður:

1. Vinnumarkaðurinn, réttindi launafólks og samskipti á vinnumarkaði

Alþýðusambandið bendir á að framsetning í 2. grein frumvarpsins þarf að vera mun skýrari og markvissari hvað varðar þá staðreynd að lögunum er með engum hætti ætlað að ná til vinnuréttar í víðasta skilningi og þar með kjara og annarra réttinda launafólks sem starfar hér á landi um lengri eða skemmri tíma eða hafa áhrif á þær reglur sem gilda um samskipti á íslenskum vinnumarkaði. Um það efni á önnur innlend löggjöf að gilda.

Í 2. gr. þar sem m.a. er talið upp um hvað reglur laganna gilda ekki, segir í 8. tölulið:

„8. vinnurétt, þ.m.t. réttinn til að semja um kjör og framfylgja kjarasamningum, vinnuskilyrði, heilbrigði og öryggi á vinnustað, tengsl milli vinnuveitenda og starfsmanna, eða almannatryggingalöggjöf,“

Í athugasemdum segir síðan um þetta atriði:

„Samkvæmt 8. tölul. 4. mgr. fjalla lögin ekki um vinnurétt, þ.m.t. réttinn til að semja um kjör og framfylgja kjarasamningum, vinnuskilyrði, heilbrigði og öryggi á vinnustað, tengsl milli vinnuveitenda og starfsmanna eða almannatryggingalöggjöf og er hér verið að innleiða 6. mgr. 1. gr. og síðari hluta 7. mgr. 1. gr. þjónustutilskipunarinnar.“

Í þjónustutilskipuninni sjálfri er fjallað mun ítarlegar um þetta efni og er efni hennar um margt skýrara og afdráttarlausara en efni frumvarpsins. Í 1. grein tilskipunarinnar segir í 6. tölul.[1]:

„6. This Directive does not affect labour law, that is any legal or contractual provision concerning employment conditions, working conditions, including health and safety at work and the relationship between employers and workers, which Member States apply in accordance with national law which respects Community law. Equally, this Directive does not affect the social security legislation of the Member States.“

Þá segir í 7. tölul.:

„7. This Directive does not affect the exercise of fundamental rights as recognised in the Member States and by Community law. Nor does it affect the right to negotiate, conclude and enforce collective agreements and to take industrial action in accordance with national law and practices which respect Community law.“

Einnig má nefna að í 14., 86. og 87. tölulið inngangs tilskipunarinnar er fjallað um framangreint efni, þar sem það er áréttað og skýrt frekar.

Lagt er til að efni frumvarpsins varðandi framangreindan þátt verði breytt þannig að það komi skýrt og afdráttarlaust fram og verði hafið yfir allan vafa að lögin gildi ekki um vinnurétt, þ.m.t. réttindi og skyldur launafólks sem hér starfar um lengri eða skemmri tíma óháð því hvar staðfesta fyrirtækisins sem þeir starfa hjá er . Í því sambandi mætti í athugasemdum, til frekari skýringa, m.a. vísa til laga nr. 55/1980, laga nr. 139/2005 og laga nr. 45/2007. Jafnframt verði efni 7. töluliðar tilskipunarinnar komið skýrt til skila. Þetta gildir hvoru tveggja um lagatextann sjálfan og athugasemdir með frumvarpinu.

2. Gerviverktaka

Alþýðusambandið hefur í umræðum um lögleiðingu þjónustutilskipunarinnar hér á landi allt frá upphafi, og reyndar löngu fyrr, lagt áherslu á að brugðist verði af festu við hættunni á svartri atvinnustarfsemi og gerviverktöku í tengslum við veitingu þjónustu yfir landamæri. Þessi afstaða ASÍ hefur m.a. ítrekað verið sett fram í viðræðum við utanríkisráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið. Þá hefur Alþýðusambandið og samstarfi við samtök atvinnurekenda beitt sér með ýmsum hætti í þessum efnum.

Lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra (nr. 45/2007) og lög um starfsmannaleigur (nr. 139/2005) með síðari breytingum hafa að nokkru mætt framangreindum sjónarmiðum ASÍ. Þá er nú í smíðum frumvarp til laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum sem miklu skiptir, verði það að lögum. Framangreindri löggjöf er þó einkum ætlað að tryggja kjör og réttindi launafólks og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi.

Eftir stendur sú krafa ASÍ að fjallað verði heildstætt um hættuna á gerviverktöku í tengslum við þjónustuviðskipti yfir landamæri og við henni brugðist með fullnægjandi hætti. Er þá m.a. verið að vísa til hættunnar á því að erlendir þjónustuveitendur (þar með talið starfsmannaleigur) skrái starfsmenn sína sem verktaka og reyni með þeim hætti að koma sér undan því að virða íslenska löggjöf og kjarasamninga um réttindi og skyldur þeirra sem hjá þeim starfa. Hér er um raunverulega hættu að ræða eins og viðurkennt er í þjónustutilskipuninni sjálfri. Í 86. tölulið inngangs tilskipunarinnar segir um þetta efni m.a.:

(87) Neither should this Directive affect terms and conditions of employment in cases where the worker employed for the provision of a cross-border service is recruited in the Member State where the service is provided. Furthermore,this Directive should not affect the right for the Member State where the service is provided to determine the existence of an employment relationship and the distinction between self-employed persons and employed persons,including ‘false self-employed persons’. In that respect the essential characteristic of an employment relationship within the meaning of Article 39 of the Treaty should be the fact that for a certain period of time a person provides services for and under the direction of another person in return for which he receives remuneration. Any activity which a person performs outside a relationship of subordination must be classified as an activity pursued in a self-employed capacity for the purposes of Articles 43 and 49 of the Treaty.

Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og athugasemdir Alþýðusambandsins við undirbúning lögleiðingar þjónustutilskipunarinnar hér á landi hefur óskum og ábendingum sambandsins í þessum efnum í engu verið sinnt. Það er því fortakslaus krafa ASÍ að á þessu mikilvæga málið verði tekið samhliða lögleiðingu þjónustutilskipunarinnar. Eðlilegast er að það verði gert í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Að lokum

Mikið liggur við að vandað verði til verka við lögleiðingu þjónustutilskipunarinnar hér á landi. Grundvallaratriði er að þess sé gætt eins og kostur er að lögleiðing tilskipunarinnar raski í engu kjörum og réttindum launafólks á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt kjarasamningum og lögum eða þeim reglum og venjum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Af hálfu Alþýðusambands Íslands er gerð sú skýlausa krafa að leitað verði allra leiða til að koma í veg fyrir að þjónustuviðskipti á evrópska efnahagssvæðinu og þjónustutilskipunin leiði til svartrar atvinnustarfsemi og gerviverktöku með tilheyrandi undirboðum á vinnumarkaði.

Lagt er til að fyrirliggjandi frumvarp verði endurskoðað og endurbætt í ljósi þeirra ábendinga og athugasemda sem settar hafa verið fram hér að framan. Í þeirri vinnu verði efni og framsetning í norskri löggjöf um sama efni skoðuð sérstaklega[2].

Virðingarfyllst,

F.h. Alþýðusambands Íslands

Halldór Grönvold