Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð

Reykjavík 9.1.2019
Tilvísun: 201812-0033

Efni: Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr.130/2016, með síðari breytingum (launafyrirkomulag), 413. mál

Með frumvarpinu er lagt til breytt fyrirkomulag við launaákvarðanir þeirra sem áður féllu undir úrskurðarvald kjararáðs sem lagt var niður með lögum nr. 60/2018 skv. tillögu starfshóps um málefni kjararáðs frá febrúar 2018. Í frumvarpinu er tillögum starfshópsins um að taka upp nýtt, fyrirsjáanlegt og gagnsætt fyrirkomulag við ákvörðun launa æðstu stjórnenda ríkisins fylgt eftir í megin atriðum.

Samantekt:
Alþýðusamband Íslands tekur undir þær breytingar sem lagðar eru til varðandi fyrirkomulagi launaákvarðana til framtíðar en vekur athygli á að framúrkeyrsla kjararáðs umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2015 kostaði skattgreiðendur um 1,3 milljarða króna í launahækkunum til þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna sem eru meðal hæst launuðu hópa hér á landi. Þá gerir ASÍ alvarlegar athugasemdir við að til standi að hækka laun allra þeirra ráða- og embættismanna sem breytingin nær til þann 1. júlí n.k. þrátt fyrir að fyrir liggi að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafi hækkað langt umfram almenna launaþróun. ASÍ leggst sömuleiðis gegn því að ráðherra fái heimild til þess að hækka laun umrædds hóps þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins og leggur til launin taki breytingum einu sinni á ári þegar mat Hagstofunnar á breytingu reglulegra launa ríkisstarfsmanna liggur fyrir í júní ár hvert.

Þá telur Alþýðusambandið rétt að vekja athygli á því að á undanförnum árum hefur ríkið sem launagreiðandi verið leiðandi í aukinni misskiptingu milli þeirra lægst launuðu og þeirra sem hæst hafa launin. Má þannig nefna að regluleg heildarlaun verkafólks hjá ríkinu hækkuðu um 25% milli áranna 2014 og 2017 á sama tíma og laun stjórnenda hjá ríkinu hækkuðu um 33%. Á almennum vinnumarkaði er þessu öfugt farið, þar hækkuðu laun verkafólks um tæp 24% á sama tímabili en laun stjórnenda um tæplega 20%. Í þessu samhengi er eðlilegt að stjórnvöld setji sér og geri grein fyrir launastefnu sinni og markmiðum varðandi launasetningu og launabil milli hópa. Þannig má t.a.m. spyrja hvort það sé meðvituð stefna stjórnvalda að forseti lýðveldisins sé með nærri tífalda lágmarkstekjutryggingu í mánaðarlaun?

Nánari greinagerð:
ASÍ tekur undir þann þátt frumvarpsins sem snýr breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana með því að:
• Laun þjóðkjörinna fulltrúa, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð.
• Laun og starfskjör forsetaritara og nefndarmanna í fullu starfi hjá úrskurðarnefndum verði ákvörðuð skv. 39. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
• Laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra í kjarasamningum verði ákveðin af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi skrifstofustjóra Stjórnarráðsins.
• Laun og starfskjör sendiherra verði ákvörðuð í kjarasamningum ríkisins við viðkomandi stéttarfélag.

Í skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs segir:
„Í rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði í október 2015 var sú lína lögð að kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga yrðu ekki meiri en 32% á bilinu nóvember 2013 til ársloka 2018. Samkomulagið byggist m.a. á því að starfsgreinar eða hópar geti innan þess ramma fengið mismunandi launahækkanir en heildarniðurstaðan skuli vera tryggð. Þá er tekið fram í rammasamkomulaginu að opinberum starfsmönnum verði „tryggt það launaskrið sem verður á almennum vinnumarkaði umfram launaskrið á opinberum vinnumarkaði“.

Með úrskurði kjararáðs, einkum í október 2016, voru teknar ákvarðanir um launabreytingar sem höfðu þá í för með sér hækkanir langt umfram viðmið rammasamkomulagsins. Aðilar vinnumarkaðarins og ýmsir fleiri telja að þessir úrskurðir kjararáðs hafi farið á svig við sáttina í rammasamkomulaginu og að ríkisvaldið hafi því brugðist þeim skuldbindingum sem það tók á sig með undirritun þess.“

Í skýrslunni kemur einnig fram að frá árinu 2013 hafi laun ráðherra hækkað um 64%, þingmanna um 48-57%, ráðuneytisstjóra um 48-49%, skrifstofustjóra um 51-55% og forseta Íslands um 46%. Meðalárslaun ríkisstarfsmanna hafi á sama tíma hækkað um 40% og gera megi ráð fyrir því að breyting meðalárslauna ríkisstarfsmanna verði á bilinu 43-48% á tímabili rammasamkomulagsins þ.e. milli áranna 2013-2018.

Til að bregðast við þessu misræmi fjallaði starfshópurinn um þrjár leiðir:

1. Ný ákvörðun um lækkun þeirra launa sem kjararáð ákvarðar til samræmis við viðmið rammasamkomulagsins og endurgreiðsla þeirra launa sem greidd hafa verið á grundvelli þeirra. Starfshópurinn var sammála um að þessi leið væri of íþyngjandi.
2. Ný ákvörðun um lækkun þeirra launa sem ráðið ákvað.
3. Launum verði haldið óbreyttum í tiltekinn tíma, þ.e. þar til nýtt fyrirkomulag um ákvörðun launa tekur gildi.
Meirihluti starfshópsins taldi leið tvö einnig ganga of langt og lagði til að leið þrjú yrði farin en fulltrúi ASÍ í hópnum var þessu mati ósammála og mældi með því að leið tvö yrði farin gagnvart þjóðkjörnum fulltrúum og æðstu embættismönnum.

„Minnihluti starfshópsins, fulltrúi ASÍ, mælir með því að valkostur tvö, þ.e. um lækkun launa, verði ofan á hvað varðar forseta, ráðherra, þingmenn, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Sá valkostur gangi ekki of langt, hann samræmist rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins frá 27. október 2015, hann standist lög og heimildir stjórnvalda samkvæmt stjórnarskrá og þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er bundið af og sé líklegastur til þess að stuðla að sátt á vinnumarkaði.“

ASÍ taldi þannig nauðsynlegt að bregðast ekki eingöngu við útafkeyrslu kjararáðs til framtíðar með tímabundinni frystingu launa heldur lækka laun forseta, ráðherra, þingmanna, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra sem nemur útafkeyrslunni og fylgja eftir það almennri launaþróun ríkisstarfsmanna eins og lagt er til. Til að jafnsetja launaþróun æðstu stjórnenda ríkisins við aðra ríkisstarfsmenn var af ofangreindum tölum ljóst að frysta þyrfti laun æðstu stjórnenda a.m.k. út árið 2018 og í sumum tilvikum mun lengur. Það er mat ASÍ að með því að frysta laun þessa hóps héldi hann ekki einungis „ofgreiddum launum“ upp á 671 milljón króna heldur fengi áframhaldandi ofgreiðslur upp á 378 milljónir til viðbótar þar til frystingunni líkur. Þegar upp verður staðið mun útafkeyrsla kjararáðs því hafa kosta ríkissjóð um 1,3 milljarða króna. Ef hins vegar hefði verið farin sú leið sem ASÍ lagði til og laun þessa hóps lækkuð til samræmis við útafkeyrslu kjararáðs hefði það sparað ríkissjóði tæplega hálfan milljarð króna auk þess sem sú leið hefði verið mun líklegri til að stuðla að sátt á vinnumarkaði.

Alþýðusamband Íslands gerir þess vegna alvarlegar athugasemdir við að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að laun allra þeirra ráðamanna og embættismanna sem ákvörðuð eru með fastri krónutölufjárhæð þ.m.t. laun forsætisráðherra, annarra ráðherra og þingmanna taka hækkunum frá og með 1. júlí n.k. samkvæmt nýju fyrirkomulagi. Fyrir liggur að laun fyrir þessa æðstu stjórnendur ríkisins hafa hækkað langt umfram almenna launaþróun og hefur sú framúrkeyrsla enn ekki verið jöfnuð. Alþýðusambandið hafnar því alfarið þeim hluta frumvarpsins sem snýr að þessu og gerir kröfu um að launahækkunum til þessara aðila verði frestað þar til fyrir liggur að jöfnun gagnvart launahækkunum annarra ríkisstarfsmanna hafi verið náð.

Að öðru leiti tekur ASÍ undir þá leið sem fara á við að ákvarða launaþróun fyrir umrædd störf til framtíðar, þannig að þau taki breytingum í júlí ár hvert til samræmis við mat Hagstofu Íslands á hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið ár. ASÍ gerir hins vegar athugasemdir við að gert sé ráð fyrir því að ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins geti einnig ákvarðað að hækka laun þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Í tillögum starfshópsins er fjallað um mikilvægi þess að festa laun umrædds hóps betur í sessi og láta þau þróast í samræmi við almenna en vel skilgreinda mælikvarða með reglulegu millibili. Þá er lagt til að laun sem fastsett eru með lögum verði endurákvörðuð einu sinni á ári og gildi óbreytt í eitt ár frá þeim degi. Starfshópurinn telur þannig fullnægjandi að launin breytist árlega enda rík hefð fyrir því í kjarasamningum á vinnumarkaði að miða við árlegar launahækkanir. Að auki má ætla að hækkun launa tvisvar á ári eins og lagt er til í frumvarpinu skili ráðamönnum og æðstu embættismönnum meiri launahækkun en ella og verði því dýrari fyrir ríkissjóð. ASÍ leggur því til að farið verði að tillögum starfshópsins og laun hækkuð einu sinni á ári þegar mat Hagstofunnar á breytingu reglulegra launa ríkisstarfsmanna liggur fyrir í júní ár hvert.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ