Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti

Reykjavík, 06.05.2016
Tilvísun: 201604-0019


Efni: Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, 668. mál
Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að skattaafsláttur verði veittur erlendum sérfræðingum með það að markmiði auðvelda íslenskum fyrirtækjum að laða til sín ákveðna sérfræðiþekkingu sem ekki finnst hér á landi. Byggt er á sænska fyrirkomulaginu sem felur í sér að 25% af heildartekjum, eftir greiðslu í lífeyrissjóð og tryggingagjalds, eru undanskildar skattgreiðslum. Meðfylgjandi athugasemdir snúa að þessum hluta frumvarpsins (3. gr. og 5. gr.).

Umræða um skort á færni og sérþekkingu á íslenskum vinnumarkaði er ekki ný af nálinni og á við um fjölbreyttan hóp starfa, ekki einungis þá sérfræðinga sem taldir eru upp í frumvarpinu (þ.e. sérfræðingar rannsóknum, þróun, stjórnun, markaðssetningu, verkfræði, fjármálum, upplýsingatækni o.fl.) heldur hefur um langt skeið verið víða vakin athygli á skorti á fjölbreyttum hópi iðnaðarmanna hér á landi t.d. í málmiðnaði. Það er jákvætt að tekin séu skref til að mæta þessum vanda, en vandinn er tvíþættur og þó skattaafsláttur til erlendra sérfræðinga kunni að bæta stöðuna til skamms tíma á ákveðnum sviðum er brýnt að menntakerfið taki betur mið af eftirspurn vinnumarkaðarins til framtíðar.

Alþýðusambandið telur að verið sé að fara flókna leið með skipun nefndar sem horfir á þröng skilyrði um sérfræðinga og menntun. Þannig er sérþekking ekki alltaf bundin við menntun, og þá sérstaklega í nýjum og vaxandi greinum. Önnur leið væri að miða við tekjur t.d. líkt og gert er í Danmörku þar sem þeir teljast sérfræðingar sem hafa að lágmarki 62.394 DKK á mánuði. Í Svíþjóð eru þeir sjálfkrafa taldir sérfræðingar sem hafa yfir 82.000 SEK í tekjur á mánuði en geta þó verið taldir sérfræðingar með lægri tekjur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Alþýðusambandið telur að skýra þurfi nánar hvort markmiðið sé eingöngu að laða að erlenda sérfræðinga eða hvort það eigi einnig að taka til Íslendinga, en þetta er ekki skýrt í frumvarpinu og þau fimm ár sem miðað er við kunna að skammur tími ef skattaafsláttur nær til Íslendinga. Í Svíþjóð njóta þeir ekki skattaafsláttar sem áður hafa búið í Svíþjóð og í Danmörku hefur verið brugðist við með ákvæði sem setur skilyrði um að þeir njóti ekki skattaafsláttar sem hafi verið skattskyldir innan Danmerkur í 10 ár.


Róbert Farestveit, 
hagfræðingur