Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta)

Reykjavík, 14.3.2012

               Tilvísun: 201203-0001

Efni: Frumvarp um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta), mál 508.

ASÍ hefur gagnrýnt fyrirkomulag og framkvæmd úthlutunar tollkvóta. ASÍ telur því mikilvægt að stjórnvöld bregðist við athugasemdum Umboðsmanns Alþingis varðandi úthlutun tollkvóta.

ASÍ telur að með frumvarpinu sé stigið jákvætt skref enda segir í greinargerð þess: „Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þessar: Í fyrsta lagi er lagt til að miða skuli við magntolla við úthlutun á tollkvótum samkvæmt viðaukum IIIA og B en ekki verðtolla. Í framangreindum viðaukum eru tilgreindir tollkvótar samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 12. gr. tollalaga, sem skylt er að úthluta árlega. Í öðru lagi er lagt til að skilgreint verði nánar í lögum hvaða staða þurfi að vera uppi á innanlandsmarkaði sem verður til þess að tollkvótum sé úthlutað samkvæmt viðaukum IVA og B. Einnig er lagt til að nánar verði skýrt hvernig tollur skuli ákveðinn við úthlutun tollkvóta og lögfest hlutlæg skilyrði fyrir þeirri ákvörðun. Með þessum breytingum er leitast við að koma til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis þar sem sett eru fram skýr og hlutlæg skilyrði fyrir ákvörðun um úthlutun tollkvóta og ákvörðun tolla á þær vörur sem úthlutað er samkvæmt slíkum kvótum.“

ASÍ telur mikilvægt að tryggja að á innanlandsmarkaði sé ávallt til staðar nægilegt framboð af landbúnaðarvörum til að tryggja verðsamkeppni og eðlilega samkeppni í vöruframboði. Þá telur ASÍ mikilvægt að tryggja að ávallt séu fáanlegar vörur frá fleiri en einum framleiðanda til þess að sem eðlilegust verðmyndun geti átt sér stað á markaði fyrir landbúnaðarafurðir. Greinargerð frumvarpsins tekur undir þessi sjónarmið eða eins og segir í greinargerðinni: „Skilyrðin sem sett eru fram í frumvarpinu miða að því að nægjanlegt magn af landbúnaðarvörum sé til staðar á innanlandsmarkaði á hverjum tíma þannig að þörfum neytenda sé fullnægt. Þá er stefnt að því að tryggja ákveðna verðsamkeppni á markaði með því að tryggja að vara sé ávallt fáanleg frá fleirum en einum framleiðanda, neytendum til hagsbóta.“

ASÍ telur því frumvarpið til bóta.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ