Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum

Frumvarp um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum

Reykjavík, 20. febrúar 2017
Tilvísun: 201402-0008


Efni: Frumvarp um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, 84. mál.

Alþýðusamband Íslands hefur ætíð lagt áherslur á að nauðsynlegt sé að lengja fæðingar- og foreldraorlofið. Eins og fram kemur í lögum um fæðingar- og foreldraorlof þá hefur markmið laganna annars vegar verið að tryggja barni samvistir við báða foreldra og hins vegar að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Til að þessum markmiðum laganna sé náð, þarf meðal annars að lengja fæðingar- og foreldraorlofið.

Starfshópur um mótun á tilhögun að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði af sér tillögum í mars 2016 til þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra. ASÍ átti fulltrúa í starfshópnum og er hér með vísað til skýrslunnar og þeirra megintillagna sem þar koma fram.

ASÍ lagði fram sérstaka bókun þar sem segir að þó að ASÍ hefði viljað hraða þeim breytingum sem fram koma þá styðji sambandið þá málamiðlun sem tillögur starfshópsins endurspegla og sem fram koma í skýrslunni. Þetta á við um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra. Ítrekað var að þó ASÍ hefði viljað sjá lengingu fæðingarorlofsréttar koma mun fyrr til framkvæmda, þá studdi sambandið tillöguna á þeim forsendum að hún fæli í sér raunhæfa aðlögun í framkvæmd.
ASÍ fagnar framkomnu frumvarpi um lengingu fæðingarorlofs í allt að 12 mánuði, þar sem lagt er til að skipting orlofsins verði að hvort foreldri um sig hafi fimm mánaða sjálfstæðan rétt og sameiginlegur fæðingarorlofsréttur foreldra verði tveir mánuðir.

ASÍ telur tillöguna rúmast vel innan þess hluta tryggingagjalds sem Fæðingarorlofssjóður fékk á árunum 2012-2013, þ.e. 1,28% af tryggingagjaldinu, en gjaldið var lækkað um næstum helming árið 2014. Því sé engin þörf á sérstakri hækkun tryggingagjalds, þrátt fyrir lengingu fæðingarorlofsins, heldur eingöngu tilfærsla eins og lagt er til í frumvarpinu.

Virðingarfyllst,
f.h. ASÍ
Maríanna Traustadóttir
sérfræðingur