Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof og fl.

Reykjavík 28.11.2018
Tilvísun: 201811-0009

Efni: Frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar (framlag í lífeyrissjóði), 300. mál

Með frumvarpinu er lagt til að mótframlag í lífeyrissjóð á grundvelli ofangreindra laga hækki úr 8% í 11,5% til samræmis við kjarasamning aðildarfélag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá 21. janúar 2016. Í samningnum er kveðið á um hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð um 3,5% sem komi til framkvæmda í þremur áföngum, 0,5% stig þann 1. júlí 2016, 1,5% stig þann 1. júlí 2017 og um 1,5% stig þann 1. júlí 2018. Með samkomulagi ASÍ og SA frá 15. júní 2016 var samið um nánari útfærslu á fyrirkomulagi hækkunarinnar þar sem m.a. er fjallað um heimild sjóðfélaga til að ráðstafa að hluta eða fullu, auknu framlagi launagreiðenda í bundinn séreignarsparnað.

Við gerð samkomulagsins var gengið út frá því gerð yrði breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem lögbundið lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð yrði hækkað í 15,5% til samræmis við samninginn auk þess sem umgjörð um aukið val sjóðfélaga innan skyldutryggingar í samræmi við samkomulagið yrði tryggði með lögum. Þetta er nauðsynlegt til að taka af lagalega óvissu sem nú ríkir um tilgreinda séreign innan skyldutryggingar og óvissu um ábyrgð á innheimtu iðgjalda sem getur stefnt lífeyrisréttindum sjóðfélaga í tvísýnu. Vorið 2017 lá fyrir samkomulag við fjármálaráðherra um lagt yrði fram frumvarp þess efnis eigi síðar en á haustþingi það ár. Slíkt frumvarp var hins vegar aldrei lagt fram og hefur málið ítrekað verð tekið upp við stjórnvöld síðan þá, án árangurs.
ASÍ leggur þess vegna fyrst og fremst ríka áherslu nauðsyn þess að innleiða nú þegar efni umrædds kjarasamnings og samkomulags í heildarlöggjöf um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997. Sú breyting sem hér er lögð til er mikilvægur liður í að tryggja að sú breyting verði einnig til að treysti lífeyrisréttindi þeirra sem eru utan vinnumakaðar vegna atvinnumissis, gjaldþrots, barnsfæðingar eða umönnunar.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ