Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur og lögum um húsaleigubætur

Reykjavík 4. maí 2010

 

Efni:  Frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur og lögum um húsaleigubætur - 554. mál

Að efni til er frumvarpið þríþætt:

Í fyrsta lagi er kveðið á um að bráðabirgðaákvæði laga um atvinnuleysistryggingar um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli og vegna sjálfstætt starfandi einstaklinga verði framlengd til loka árs 2010.

Í annan stað er lögð til breyting á skilyrðum um þátttöku á íslenskum vinnumarkaði vegna greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA, sem telur núgildandi ákvæði laganna gera ríkari kröfur í þessum efnum en Evrópurétturinn heimilar.

Í þriðja lagi er lagt til að atvinnulausir verði ekki fyrir skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna elli- og örorkulífeyrisgreiðslna úr séreignalífeyrissjóðum til samræmis við breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 100/2007. Til að gæta jafnræðissjónarmiða er jafnframt lagt til að þessi breyting verði afturvirk til 1. mars 2009. Þá er lagt til að framangreindar greiðslur verði ekki taldar til tekna skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur.

Alþýðusamband Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við meginefni frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt sem fyrst með eftirfarandi breytingum.

Lagt er til að bráðabirgðaákvæðið um endurgreiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði verði ekki bundnar því að viðkomandi atvinnuleitandi óski eftir slíkum endurgreiðslum. Fyrir liggur að Greiðslustofa vegna atvinnuleysisbóta hefur allar forsendur sem þarf til að framkvæma endurgreiðslurnar og því er bráðabirgðaákvæðið eins og það er samkvæmt frumvarpinu eingöngu til þess falli að draga úr líkum á því að þeir einstaklingar sem hafa mestra hagsmuna að gæta fari á mis við þá réttarbót sem frumvarpinu er ætlað að tryggja.

Þá telur Alþýðusambandi mikilvægt að fram komi að breytingarnar sem frumvarpið felur í sér eru aðeins lágmarksbreytingar og að fyrir liggur að tímabært er fram fari víðtæk endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur á síðustu misserum í kjölfar efnahagshrunsins og mikils og varanlegs atvinnuleysis. Þannig hefur komið í ljós að lögin um atvinnuleysistryggingar og lögin um vinnumarkaðsaðgerðir tryggja launafólki almennt ekki þau réttindi og þjónustu sem eðlilegt er að gera kröfur um. Þá eru ýmsir sértækir þættir sem krefjast frekari skoðunar. ASÍ treystir því að nauðsynleg endurskoðun laganna með þeim markmiðum sem greinir hér að framan.

Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ

 

Reykjavík 14. maí 2010

 

Efni: Frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur og lögum um húsaleigubætur - 554. mál. Viðbót

Alþýðusambandi Íslands gaf 4. maí sl. umsögn um ofangreint frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysisbætur og lögum um húsaleigubætur.

Að gefnu tilefni vill ASÍ bæta við meðfylgjandi athugasemdum og ábendingum.

 

Bótatímabil atvinnuleysisbóta verði þegar lengt úr þremur árum í fjögur.

Samkvæmt gildandi lögum er bótatímabil atvinnuleysisbóta að hámarki þrjú ár.

Þegar lögin um atvinnuleysistryggingar voru sett árið 2006 var 3ja ára bótatímabil talið fullnægjandi. Á þeim tíma var atvinnuleysi hér á landi mjög lítið og allur þorri þeirra einstaklinga sem misstu vinnuna fengu atvinnu að stuttum tíma liðnum. Við þær aðstæður var það sjónarmið uppi að þeir fáu einstaklingar sem yrðu atvinnulausir um lengri tíma væru í þeirri stöðu að þeir þyrftu önnur og frekari úrræði og aðstoð en hefðbundin úrræði Vinnumálastofnunar.

Nú eru aðstæður á íslenskum vinnumarkaði allt aðrar en voru árið 2006. Samdráttur í atvinnulífinu, einkum í kjölfar hrunsins haustið 2008 hefur leitt til þess að mikill fjöldi einstaklinga er atvinnulaus og ljóst er að það mun taka nokkur misseri og ár þangað til atvinnulífið nær sér af þeim áföllum sem það hefur orðið fyrir. Þar við bætist að einstök svæði höfðu orðið fyrir áföllum í atvinnumálum fyrir hrunið og á það ekki síst við um Suðurnesin. Skyndilegt brotthvarf bandaríska hersins, sem var einn stærsta atvinnurekandinn á svæðinu hafði víðtæk og alvarleg áhrif á atvinnumálin á því svæði. Aðalatriðið er þetta: Störfum á íslenskum vinnumarkaði hefur fækkað svo þúsundum skiptir á síðustu árum og þeim einstaklingum sem misst hafa vinnuna stendur einfaldlega ekki störf til boða. Þá er því spáð að langur tími mun líða áður en atvinnulífið réttir úr kútnum að nýju.

Nú er svo komið að nokkur fjöld fólks hefur þegar tæmt bótarétt sinn í Atvinnuleysistryggingasjóði og ljóst er að fjölga mun í þeim hópi á næstu mánuðum og misserum fari fram sem horfir[1]. Á sama tíma er ljóst að sveitarfélögin í landinu eru almennt illa undir það búin að tryggja framfærslu viðkomandi einstaklinga, auk þess sem bætur þeirra eru almennt mjög lágar.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusamband Íslands til að bótatímabil atvinnuleysisbóta verði nú þegar lengt úr þremur árum í fjögur. Slík lenging nú mun koma til móts við þarfir þeirra sem þegar hafa eða eru um það bil að ljúka bótatímabili sínu. Þá mun ákvörðun um lengingu bótatímabilsins nú draga úr óvissu þeirra einstaklinga sem verið hafa atvinnulausir um lengri tíma.

Útreikningur vegna hlutabóta á móti skertu starfshlutfalli.

Eins og kunnugt er var ákveðið í kjölfar hrunsins haustið 2008 að útfæra reglur um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli með það að markmiði að fyrirtæki sem lentu í samdrætti með starfsemi sína mundu frekar bregða á það ráð að skerða starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til umfangsmikilla uppsagna. Að baki þessari aðgerð bjó sú hugsun að með því væri verið að tryggja starfsmönnum mikilvæga tengingu við fyrirtækin og vinnumarkaðinn og að fyrirtækin hefðu áfram aðgang að hæfu og reyndu fólki þegar úr færi að rætast. Eitt megininntak þess frumvarps sem hér er til umræðu er einmitt að framlengja þetta fyrirkomulag, sem er tímabundið, til næstu áramóta enda ágreiningslaust að þetta fyrirkomulag hefur almennt reynst vel.

Fyrirkomulagið eins og það er nú gerir ráð fyrir að skerðing á bótatímabili viðkomandi einstaklinga sé „dagur á móti degi“. Það þýðir að óháð því hversu hátt bótahlutfallið er sem viðkomandi einstaklingur er að fá úr Atvinnuleysistryggingasjóði, þá telur hver dagur sem einn heill bótadagur og dregst þannig frá heildarbótatímabili viðkomandi. Þannig hefur til dæmis einstaklingur sem fór úr 100% í 90% starf í nóvember 2008 og síðan í 80% starf frá 1. janúar 2010 og er í því starfshlutfalli nú, þegar nýtt sem svarar tæpum 18 mánuði af 3ja ára bótatímabilinu sem viðkomandi á mest rétt á.

Alþýðusambandið hefur ítrekað bent á að það fyrirkomulag varðandi talningu á nýttum bótadögum sem hér hefur verið lýst sé í hæsta máta óeðlilegt og að nauðsynlegt væri að taka á þessum þætti við fyrsta tækifæri. Undir þetta sjónarmið hefur verið tekið, m.a. af fulltrúum félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Jafnframt hefur þeim einstaklingum farið fjölgandi sem eru nú á hlutabótum, sem spyrjast fyrir um hvort ekki eigi að taka á þessu máli. Að baki býr ótti þessara einstaklinga við að ef þeir missa alfarið vinnuna og verði í framhaldinu atvinnulausir um lengri tíma, séu þeir þegar búnir að nýta umtalsverðan hluta bótatímabilsins, á móti oft mjög lágu bótahlutfalli.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandið til að við afgreiðslu frumvarpsins nú verði tekið á útreikningi bótatímabilsins til að koma til móts við framangreind sjónarmið. Það má t.d. gera með því að láta hlutfall hlutabótanna ákvarða nýtingu bótadaga. Sem dæmi þannig að ef viðkomandi einstaklingur fær 20% bætur á móti skertu starfshlutfalli teljist það vera 20% af heilum bótadegi.

Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ 


[1] Alþýðusambandið hefur óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um fjölda þeirra sem þegar hafa fullnýtt bótarétt sinn og hversu margir munu fullnýta hann það sem eftir er ársins, að öðru óbreyttu. Þegar þetta er ritað hafa svör við fyrirspurninni ekki enn borist.