Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar

Alþýðusambandið hefur fengið til umsagnar breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, 10. mál. Alþýðusamband Íslands hefur lengi verið þeirrar skoðunar að það væri forgangsverkefni í íslensku þjóðlífi að endurskoða frá grunni grundvallarlöggjöfina um velferðarkerfið. Í þeirri endurskoðun þurfi þrennt að hafa að leiðarljósi, í fyrsta lagi samstilling hins lögbundna almannatryggingakerfis og hins samningsbundna lífeyrissjóðakerfis (þar með talið hlutverk viðbótarlífeyrissparnaðar). Í öðru lagi veruleg hækkun allra viðmiðunarfjárhæða, sem skilgreina verður út frá hlutfallslegri tekjudreifingu landsmanna. Í þriðja lagi þarf að endurskoða frá grunni afstöðu samfélagsins til atvinnuþátttöku þeirra sem að hluta eða öllu leyti eru á bótum almannatryggingakerfisins. Ljóst er að þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku landsmanna almennt er verulegur skortur á vinnuafli og fyrirsjáanlegt að slíkt ástand muni vara um margra ára skeið. Jafnframt hefur verið sýnt fram á með rökum, að ríkissjóður hagnast verulega á aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara.

Alþýðusambandið er að mörgu leiti sammála mörgum af þeim sjónarmiðum sem fram koma í umræddu frumvarpi, en telur óráðlegt að halda áfram að stagbæta hina gatslitnu flík sem líkja má almannatryggingalöggjöfinni við. Að störfum er nefnd félagsmálaráðherra sem fengið hefur það verkefni að endurskoða almannatryggingalöggjöfina frá grunni, og leggur Alþýðusambandið til að beðið verði með frekari smáskammtalausnir þar til sú nefnd hefur lagt fram tillögur sína.

Alþýðusambandið styður því ekki samþykkt þessa frumvarps.

Með kveðju,
Gylfi Arnbjörnsson