Stefna ASÍ

Frumvarp um breytingar á lögum um almanatryggingar (afnám krónu á móti krónu skerðingar)

Reykjavík 15.9.2018
Tilvísun: 201809-0030


Efni: Frumvarp um breytingar á lögum um almanatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (afnám krónu á móti krónu skerðingar), 54. mál

ASÍ tekur undir mikilvægi þess að gera breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar er varða réttindi örorkulífeyrisþega svo bæta megi kjör þess hóps og koma í veg fyrir „krónu á móti krónu“ skerðingar sem eru með öllu óásættanlegar.

ASÍ leggur ríka áherslu á að slík breyting verði gerð með heildarendurskoðun á ákvæðum almannatryggingalaga varðandi örorkulífeyrisþega þar sem lögð verði áhersla á nýja nálgun í mati á starfsgetu og rétti til endurhæfingar samhliða upptöku á nýju, einfölduðu bótakerfi almannatrygginga sem styðji þá nálgun og komi í veg fyrir að fólk festist í fátækragildru.

Félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði í vor starfshóp um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu sem ætlað er að gera tillögur að nýju greiðslukerfi sem styður við innleiðingu starfsgetumats. ASÍ, BSRB, BHM og KÍ skipuðu sameiginlegan fulltrúa í hópinn en í honum eiga sæti auk fulltrúa frá ÖBÍ og Þroskahjálp, fulltrúar þingflokka á Alþingi og einn sameiginlegur fulltrúi samtaka atvinnurekenda. Hópurinn er enn að störfum og væntir ASÍ þess að hann leggi fram tillögur þess efnis að unnt verði að gera nauðsynlegar breytingar hvað þessa þætti varðar sem allra fyrst.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ