Stefna ASÍ

Frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins

Reykjavík 21.10 2009

Mál 200910-0016

 

Efni: Frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins (69 mál).

Alþýðusamband Íslands styður mjög eindregið framgang þessa máls. Frumvarpið skapar ramma utan um frjálsa greiðsluaðlögunarsamninga þar sem tekið er heildstætt á öllum skuldum. Um leið og ASÍ fagnar því er vakin athygli á, að sá hópur sem ekki mun eiga kost á frjálsri greiðsluaðlögun vegna þess að hann er þegar kominn í veruleg vandræði eða stefnir í þau vegna skyndilegs tekjufalls, atvinnumissis o.fl. þarf að sæta mun flóknari, tímafrekari og dýrari meðferð en sá hópur sem njóta mun hagræðis 2.gr. frumvarpsins. ASÍ hvetur Alþingi til að flýta eins og kostur er endurskoðun á ákvæðum gjaldþrotalaga um greiðsluaðlögun og lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðskulda og tryggja að þau lög nýtist þeim einstaklingum og heimilum sem veikast standa réttláta og sanngjarna meðferð í greiðsluvandræðum sínum.

Jafnframt eru gerðar eftirfarandi athugasemdir:

a. Í 4.gr. er kveðið á um sjálfvirka greiðslujöfnun verðtryggðra lána og fagnar ASÍ þeirri tillögu en bendir á að í lögunum er ekki að finna sambærilega heimild til greiðslujöfnunar gengistryggðra lána og hvetur til þess að slík heimild verði tekin upp í lögin.

b. Leita þarf leiða til þess að ekki þurfi að þinglýsa skilmálabreytingum eða leita samþykkis annarra veðhafa fyrir henni. Ein leið gæti verið sú, að breyta ákvæðum laga um verðtryggingu þannig að greiðslujöfnun yrði almennur og óaðskiljanlegur hluti verðtryggingarinnar sjálfrar og félli þannig undir almenn ákvæði viðkomandi skuldabréfs og þarfnaðist því ekki þinglýsingar.

c. Skv. 6.gr. er veitt heimild til stofnunar heildsölubanka eins og nánar er útskýrt í ákvæðinu. ASÍ telur að tillaga þessi hafi ekki hlotið nægilega umræðu en um verulega stefnubreytingu er að ræða verði heimildin nýtt. ASÍ leggur jafnframt áherslu á, að eigin fé Íbúðalánasjóðs sé betur varið til þess að standa undir auknu álagi vegna ráðstafana í þágu núverandi lántaka í greiðsluvandræðum og til þess að byggja undir almenna lánastafsemi sjóðsins.

d. Í greinargerð með 2.gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir til þess að binda lánssamninga við launavísitölu og vísað til hugsunar á bak við ákvæði 2.gr. Þar er hvergi fjallað um að binda lánssamninga við launavísitölu. ASÍ varar við því að taka upp verðtryggingu lána m.v. launavísitölu, almennt séð hækka laun meira en verðlag í formi þess að kaupmáttur landsmanna eykst yfir tíma. Lögin um greiðslujöfnun gera ráð fyrir að jafna greiðslubyrði lána með því að tryggja að greiðsluseðill hækki ekki meira en sem nemur greiðslujöfnunarvísitölu og mismunurinn lagður inn á sérstakan jöfnunarreikning sem síðan er greitt út af eftir ákveðnum reglum. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að tengja höfuðstól lána slíkri viðmiðun. Minna má á að 1995 var samsetningu lánskjaravísitölunnar breytt með því að fella út bæði launavísitölu og byggingavísitölu, en fram til þess tíma voru lánin okkar að 2/3 hluta tengd launum.

Að lokum vekur ASÍ athygli á, að nauðsynlegt er að endurskoða reglugerð nr. 54/2001 þannig að þau úrræði sem Íbúðalánasjóður býður upp á nýtist lántökum sjóðsins, óháð því hvort þeir eru komnir í vanskil eða ekki sbr. m.a. 10.gr. reglugerðarinnar.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl,

lögfræðingur ASÍ