Stefna ASÍ

Frumvarp til upplýsingalaga

Reykjavík: 18.11.2012
Tilvísun: 201210-0041
 
 
 
Efni: Umsögn um frumvarp til upplýsingalaga, 215. mál
 
Alþýðusamband Íslands styður frumvarpið í heild sinni. Alþýðusambandið gerir tvær athugasemdir við fyrirliggjandi frumvarp sem vonandi verða til umfjöllunar við þinglega meðferð málsins.
 
Í fyrsta lagi telur Alþýðusamband Íslands ekki ástæðu til að takmarka upplýsingarétt almennings að „einkaaðilum sem eru í opinberri eigu“, sbr. 3. gr. frumvarpsins, umfram það gildissvið sem mælt er fyrir um í 2. gr. frumvarpsins. Í raun telur Alþýðusamband Íslands veigamikil rök fyrir því að starfsemi slíkra aðila sé veitt það aðhald sem lögum þessum er ætlað að veita stjórnvöldum og telur því eðlilegt að „einkaaðilar sem eru í opinberri eigu“ skuli heyra undir hið almenna gildissvið laganna sem kveðið er á um í 2. gr. frumvarpsins.
 
Í öðru lagi telur Alþýðusamband Íslands ekki vera nægilega skýrt í frumvarpinu hvort að 7. gr. frumvarpsins mæli eingöngu fyrir um starfsmenn sem starfa hjá aðilum sem heyra undir gildissvið 2. gr. frumvarpsins eða bæði 2. og 3. gr. Eigi 7. gr. eingöngu við um starfsmenn aðila sem falla undir gildissvið 2. gr. frumvarpsins er það mat Alþýðusambandsins að frumvarpið sé óskýrt hvað varðar upplýsingarétt almennings um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem falla undir 3. gr. frumvarpsins. Er því skorað á viðtakanda umsagnar þessarar að hlutast til um að skýrleikinn verði aukinn hvað varðar framangreint.
 
Alþýðusamband Íslands gerir ekki aðrar efnislegar athugasemdir og styður frumvarpið að öðru leyti og telur að greiður aðgangur að upplýsingum hjá stjórnvöldum sé forsenda öflugs lýðræðissamfélags og aukið gagnsæi skili sér í bættri og betri stjórnsýslu. 
 
 
Virðingarfyllst, 
Halldór Oddsson.  
lögfræðingur hjá ASÍ