Stefna ASÍ

Frumvarp til umferðarlaga

Reykjavík 25.10 2012
Tilvísun: 201210-0011 
 
 
 
Efni: Frumvarp til umferðarlaga,179. mál.
 
Eins og fram kom í fyrri umsögn um sama mál á 138. og 139. þingi telur Alþýðusambandið frumvarpið í heild sinni til mikilla bóta bæði hvað varðar umferðaröryggismál almennt og eins með tilliti til framsetningar ákvæða frumvarpsins, m.a. í IX. kafla frumvarpsins um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sem annast farþega- og farmflutninga þungra ökutækja í atvinnuskyni. Í því efni vill ASÍ þó jafnframt vekja athygli á að ekki er einungis um að ræða umferðaröryggismál heldur einnig sjónarmið er lúta að jöfnun samkeppnisskilyrða og vinnuvernd ökumanna, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 561/2006. 
 
Athygli er jafnframt vakin á því, að í 4.mgr. 94. gr. er mælt fyrir um hlutlæga refsiábyrgð skráðs eiganda eða umráðamanns ökutækis. Mikilvæg réttarvörslusjónarmið geta mælt með þessari breytingu eins og fram kemur í greinargerð. Tekið er undir þau sjónarmið að lögin eigi almennt að hvetja til virkrar umsjónar og eftirlits með ökutæki og þeim sem hafa afnot af því. Hvað hina hlutlægu refsiábyrgð varðar er vísað í því efni í greinargerð með 4.mgr. 94.gr., sérstaklega til náinna vandamanna, maka og barna. Reglur um hlutlæga refsiábyrgð fela í sér veruleg frávik frá almennt viðurkenndum og mikilvægum mannréttindum. Vart verður séð að vel meinandi sjónarmið um félagsmótun, uppeldi og samskipti hjóna eða sambúðaraðila geti réttlætt slík frávik. 
 
Loks vekur ASÍ athygli á umsögn sinni til samgönguráðuneytisins frá 8.1 2009 þar sem fjallað var um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Þar segir m.a.: 
 
Í ljósi framanritaðs telur Alþýðusamband Íslands einsýnt að stjórnvöld þurfi nú að leggja allt kapp á að tryggja sem besta framkvæmd reglan um aksturs- og hvíldartíma ökumanna hér á landi. Það felur m.a. í sér að sköpuð verði skilyrði og aðstaða á vegum landsins þannig að markmiðin um aðbúnað og öryggi ökumanna og umferðaröryggi verði náð. Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess lýsa sig reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu.
Einnig er nauðsynlegt að fjallað verði á sameiginlegum vettvangi stjórnvalda, með þátttöku Vegagerðarinnar og aðila vinnumarkaðarins með hvaða hætti túlkun og eftirlit með framkvæmd reglnanna er háttað og hvaða sjónarmið þar eru höfð til grundvallar.
 
Þá er eðlilegt að viðræður eigi sér stað á milli samtaka atvinnurekenda og launafólks, sem málið varðar sérstaklega, um áhrif reglugerðarinnar á viðkomandi atvinnustarfsemi og hag þeirra sem við hana starfa.
 
 
Virðingarfyllst, 
Magnús M. Norðdahl hrl.  
lögfræðingur ASÍ