Stefna ASÍ

Frumvarp til umferðarlaga

Reykjavík: 13.11.2018
Tilvísun: 201811-0004

Efni: Frumvarp til umferðarlaga, 219. mál

Um er að ræða tímabæra heildarendurskoðun umferðarlaga. ASÍ vill vekja athygli á tveimur atriðum í frumvarpinu. Annars vegar þá telur ASÍ til mikilla bóta að lagt er til að styrkja ákvæði gildandi laga um bann við því að miða laun við ekna vegalengd eða flutt magn af farmi, 1.mgr. 56.gr., með því eins og lagt er til í 2. mgr. 56. gr. að lögfest verði almenn skylda flutningsaðila til að skipuleggja störf ökumanns þannig að honum sé kleift að fara eftir ákvæðum 54. gr. um aksturs- og hvíldartíma.

Hins vegar eru gerðar athugasemdir við ákvæði 3. mgr. 95. gr. um hlutlæga ábyrgð en skv. því verður heimilt að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli, þ.e. án þess að sýnt sé fram á sök hlutaðeigandi. Á það við þegar hraðakstursbrot eða akstur gegn rauðu ljósi er numið í löggæslumyndavél. Í greinargerð segir að með þessu fyrirkomulagi sé „eiganda eða umráðamanni ökutækis gert skylt að hafa virka umsjón og eftirlit með ökutæki sínu, t.d. gagnvart nánum aðstandendum, svo sem maka eða börnum, og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru svo að það sé ekki notað með þeim hætti sem fer í bága við framangreindar reglur umferðarlaga“. Þessi rökstuðningur rökstyður að lögum ekki hlutlægra refsiábyrgð í nútíma samfélagi. Slík hlutlæg ábyrgð getur átt rétt á sér í undantekningartilvikum t.d. hvað varðar ábyrgð á dýrum og dauðum hlutum þar sem umönnun, eftirliti og öryggisreglum er ekki fylgt en beiting refsingar fyrir ætlað slæmt uppeldi og stjórn á börnum og hvað þá stjórn á maka á sér engin fordæmi og er i raun forkastanlegt að sett sé fram í lög skýringar gögnum. Slíkt ákvæði kann að eiga rétt á sér gagnvart sektum sem til falla vegna brota ökumanns á ökutæki sem leigt hefur verið út í atvinnuskyni.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ