Stefna ASÍ

Frumvarp til umferðarlaga (1)

Reykjavík 4. mars 2011

Tilvísun: 201102-0046

Efni: Frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495 mál.

Eins og fram kom í fyrri umsögn um sama mál á 138 þingi telur Alþýðusambandið frumvarpið í heild sinni til mikilla bóta bæði hvað varðar umferðaröryggismál almennt og eins með tilliti til framsetningar ákvæða frumvarpsins, m.a. í IX. kafla frumvarpsins um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sem annast farþega- og farmflutninga þungra ökutækja í atvinnuskyni. Í því efni vill ASÍ þó jafnframt vekja athygli á að ekki er einungis um að ræða umferðaröryggismál heldur einnig sjónarmið er lúta að jöfnun samkeppnisskilyrða og vinnuvernd ökumanna, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 561/2006.

Athygli jafnframt vakin á því, að í 4.mgr. 94. gr. er mælt fyrir um hlutlæga refsiábyrgð skráðs eiganda eða umráðamanns ökutækis. Mikilvæg réttarvörslusjónarmið geta mælt með þessari breytingu eins og fram kemur í greinargerð. Tekið er undir þau sjónarmið að lögin eigi almennt að hvetja til virkrar umsjónar og eftirlits með ökutæki og þeim sem hafa afnot af því. Hvað hina hlutlægu refsiábyrgð varðar er vísað í því efni í greinargerð með 4.mgr. 94.gr., sérstaklega til náinna vandamanna, maka og barna. Reglur um hlutlæga refsiábyrgð fela í sér veruleg frávik frá almennt viðurkenndum og mikilvægum mannréttindum. Vart verður séð að vel meinandi sjónarmið um félagsmótun, uppeldi og samskipti hjóna eða sambúðaraðila geti réttlætt slík frávik.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.

Lögfræðingur ASÍ