Stefna ASÍ

Frumvarp til sveitarstjórnarlaga (1)

Reykjavík 26. apríl 2011

Tilvísun: 201104-0023

Efni: Frumvarp til sveitarstjórnarlaga, 726 mál.

Um er að ræða umfangsmikla lagasetningu sem um margt virðist fela í sér fyllri og skýrari ákvæði en eru í gildandi lögum auk þess sem lögin staðfesta framkvæmd sem komist hefur á. Einungis er vakin athygli á tveimur ákvæðum.

Í 57.gr. frumvarpsins segir að um réttindi og skyldur starfsmanna fari eftir ákvæðum kjarasamninga „og eða“ ákvæðum ráðningarsamninga. Eins og ákvæðið hljóðar virðist það vera valkvætt hvort um réttindi og skyldur fer skv. kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Ekki er ljóst við hvað er átt og skýringa ekki að leita í greinargerð. Eins og ákvæðið hljóðar er það andstætt ákvæðum 1. og 2. kafla l. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem eru skýr hvað það varðar að grundvöllur réttinda og skyldna starfsmanna er lagður með kjarasamningum sbr. og 7.gr. l. 80/1938 og ákvæði 1.gr. l. 55/1980. Ráðningarsamningar geta þannig ekki komið í stað kjarasamninga.

Í 99.gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til samvinnu um gerð og samþykkt kjarasamninga. Nokkuð augljóst er hvað átt er við með samvinnu um kjarasamningsgerð en ekki er ljóst hvað átt er við með „samvinnu um samþykkt“ þeirra. Í greinargerð er ekki að finna skýringar. Í 5.mgr. 3.gr. l. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir: „Sveitarstjórnir geta haft með sér samvinnu um samningsgerð og falið sameiginlegri samninganefnd samningsumboð sitt. Sama á við um samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga, svo og þeirra og forráðaaðila stofnana skv. 2. gr.“ Framangreind 99.gr. frumvarpsins virðist ekki samræmast þessum heimildum. Ef henni er ætlað að breyta aðkomu og samvinnu sveitarfélaganna í kjarasamningum þegar samið er undir ákvæðum laga 94/1986, þá er nauðsynlegt að á því verði veittar skýringar svo ekki valdi vafa við framkvæmd laga 94/1986.

 

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.

Lögfræðingur ASÍ