Stefna ASÍ

Frumvarp til lyfjalaga (heildarlög, EES-reglur)

Efni: Frumvarp til lyfjalaga (heildarlög, EES-reglur), 677. mál


Lyf eru ólík öðrum neytendavörum þar sem þau eru í reynd mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Það er réttlætismál að jafnræðis sé gætt í verðlagningu á þessari heilbrigðisþjónustu eins og annarri, gagnvart öllum neytendum, hvar sem er á landinu.

Markmið frumvarpsins er meðal annars að stuðla að hagkvæmri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni. Í því ljósi er mikilvægt að tryggja að upplýsingar um vörur og verð séu aðgengilegar neytendum, öðruvísi þrífst ekki heilbrigð samkeppni. Alþýðusambandið hefur áður vakið athygli á því að erfitt er að nálgast upplýsingar um verð lausasölulyfja þar sem þau eru gjarnan staðsett fyrir aftan afgreiðsluborð og merkingar litlar og ólæsilegar. ASÍ hefði viljað sjá aukna áherslu á verðupplýsingar lausasölulyfja til neytenda í frumvarpinu.

Alþýðusambandið fagnar rýmkun heimilda til þess að selja lausasölulyf utan hefðbundinna lyfjabúða þar sem aðgengi fólks, sér í lagi á dreifðari landsvæðum kemur til með að aukast við það.
Alþýðusambandið tekur undir mikilvægi þess sem fram kemur í 62. grein frumvarpsins að söluaðilar sem vilja selja ávísunarskyld lyf á lægra verði en hámarksverði skv. lyfjaverðskrá skulu tilkynna það til Lyfjastofnunar sem birtir það í næstu útgáfu lyfjaverðskrár auk þess sem söluaðilum er gert að selja það á sama verði á öllum sölustöðum sínum.

Í 62. grein er einnig fjallað um skipun rágjafanefndar um lyfjaverð og greiðsluþátttöku. Í nefndinni eiga Öryrkjabandalagið og Neytendasamtökin fulltrúa en athygli vekur að aðrir sjúklingahópar, eldri borgara og launafólk eiga ekki fulltrúa í nefndinni eins og eðlilegt væri. ASÍ telur æskilegt að endurskoða þetta.

f.h. Alþýðusambands Íslands
Una Jónsdóttir, hagfræðingur