Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016

Reykjavík, 12.10.2015
Tilvísun: 201509-0010

Efni: Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, 2. mál

Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016 verður að skoðast í nánu samhengi við fjárlagafrumvarpið. Á fundi sínum þann 18. september 2015 samþykkti miðstjórn ASÍ eftirfarandi ályktun um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2106:

„Miðstjórn Alþýðusambandsins gagnrýnir forgangsröðun sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið ber vissulega með sér bættan hag í ríkisrekstrinum en um leið blikka ljósin sem vara við ofþenslu í efnahagslífinu. Það er ljóst að eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu misserum er að hemja vöxtinn svo ofþensla og verðbólga keyri ekki hér um þverbak með afleiðingum sem þjóðin þekkir því miður allt of vel.

Áherslur í fjárlagafrumvarpinu eru rangar að mati miðstjórnar ASÍ. Velferðarþjónusta í landinu situr á hakanum þar sem aukin framlög dekka fyrst og fremst miklar kostnaðarhækkanir. Framlög til þjónustu í velferðarkerfinu eru ekki að aukast að raungildi sem er dapurlegt þegar hagur þjóðarinnar fer batnandi, en ljóst er að endurreisa þarf velferðarþjónusta eftir hrun. Miðstjórn ASÍ telur að stór velferðarverkefni sé enn sem komið er ófjármögnuð:

1. Heilbrigðisþjónustan, einkum kostnaður vegna læknisþjónustu.
2. Endurskipulagning öldrunarþjónustu, búsetuúrræði og þjónusta.
3. Menntaúrræði fyrir þá sem hafa litla formlega menntun.
4. Félagslegt húsnæðiskerfi – jákvætt skref er stigið en dugar engan veginn til

Miðstjórn ASÍ telur þetta allt brýn úrlausnarefni sem nauðsynlegt er að ráðast í. Það er því gagnrýnivert að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar til að draga úr þensluáhrifum í hagkerfinu sé að halda velferðarþjónustunni niðri. Það er röng forgangsröðun í landi sem vill kenna sig við norrænt velferðarsamfélag og mun þegar til lengri tíma er litið ýta undir ójöfnuð og ágreining.“
Alþýðusamband Íslands mótmælir velferðaráherslum frumvarps til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016. ASÍ telur með öllu óásættanlegt að með frumvarpinu er verið að draga úr vægi bæði vaxta- og barnabóta. Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka einungis um 3% og halda þannig ekki í við áætlaðar hækkanir á vísitölu neysluverðs milli ára hvað þá við launaþróun. Þá eru tekjuskerðingarmörk ekki hækkuð milli ára. Þannig á að verja lægri fjárhæð til barnabóta á árinu 2016 en í fjárlögum 2015. Viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta og reiknireglur eiga að vera óbreyttar milli ára. Gangi það eftir verður það sjötta árið í röð sem þær eru óbreyttar. Niðurstaðan er að verja á 1,5 milljörðum minna til vaxtabóta á árinu 2016 en í fjárlögum 2015.

Þá lýsir Alþýðusambandið yfir áhyggjum af efnahagslegum áhrifum fjárlagafrumvarpsins og frumvarps til laga um um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að 15,3 milljarða afgangi af fjárlögum. Á þá eftir að taka tillit til áhrifa gerðardóms frá því á ágúst á laun þeirra ríkisstarfsmanna sem eru innan vébanda BHM og Félags hjúkrunarfræðinga. Þá vantar einnig inn í forsendur fjárlaganna áhrif þeirra samninga sem ekki var lokið í sumarbyrjun. Því má gera ráð fyrir að í meðförum þingsins verði að leiðrétta launaforsendur fjárlaganna til hækkunar. Þá hafa einnig verið gefin vilyrði fyrir auknum útgjöldum á næsta ári sem ekki hefur verði gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Því má reikna með því að afgangur af fjárlögum 2016 verði nokkru minni en gert er ráð í fjárlagafrumvarpinu. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að lækkun skatta og tolla á árinu 2016 muni lækka tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða og um rúma 14 milljarða á árinu 2017.

Hagvísar benda til þess að þensla fari vaxandi í hagkerfinu. Þannig mældist rúmlega 5% hagvöxtur á fyrri hluta ársins, Hagstofan gerir ráð fyrri 4,5% verðbólgu á næsta ári og að launavísitalan hækki um 8% 2016. Við þessar aðstæður er mikilvægt að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjárlögunum og peningastefna Seðlabankans vinni í sömu átt. Því miður er misbrestur á því eða eins og segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá 30. september: „Að teknu tilliti til hagsveiflu felur vænt afkoma ríkissjóðs í ár og frumvarp til fjárlaga 2016 hins vegar í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum sem að óbreyttu kallar á meira peningalegt aðhald en ella.“ Þetta er ekki ásættanlegt og mun að óbreyttu leiða til meiri verðbólgu en ella og hærri vaxta.


F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason
hagfræðingur ASÍ