Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015

Reykjavík 10.10.2014
Tilvísun: 201409-0016


Efni: Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, 3. mál

Með frumvarpinu er lagðar til ýmsar breytingar á lögum sem tengjast ráðstöfunum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Meðal helstu ákvæða frumvarpsins eru breytingar á lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald, þar sem annars vegar er fallið frá greiðslu ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða á árinu 2015 og hins vegar lögð til lækkun á jöfnunarframlagi ríkisins vegna örorkubyrði lífeyrissjóða um 20% á ári næstu fimm árin. Þá er lögð til að framlenging á tímabundnu ákvæði laga um tekjuskatt nr. 90/2003 vegna breytingar á ákvæði um vaxtabætur. Auk þess er lögð til lækkun á eftirlitsgjaldi

Fjármálaeftirlitsins og lækkun á gjaldhlutfalli vegna kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Þá er lögð til hækkun á gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra og sóknargjöldum auk þess sem heimild Framkvæmdasjóðs aldraðar til að verja fé í rekstur hjúkrunarrýma er framlengdur. Lagt er til að breyta ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar þannig að lengd bótatímabils atvinnuleysisbóta verði stytt úr þremur árum í tvö og hálft ár. Þá er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði almannatryggingalaga um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og breyting á lögum um sjúkratryggingar sem felur í sér að S-merkt lyf sem ávísað er til notkunar utan sjúkrastofnanna skuli falla undir almennt greiðsluþátttökukerfi lyfja. Loks er í frumvarpinu lögð til lækkun á framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, breyting á fjárhæðum losunarheimilda og gert ráð fyrir að lagt verði úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands og fjölmörg aðildarfélög sambandsins hafa á síðustu vikum sent frá sér ályktanir um fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár. Í þeim er fjölmörgum af þeim þáttum sem fram koma í frumvarpinu mótmælt harðleg og ber þar helst að nefna niðurskurð á framlagi vegna jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða, niðurfellingu á framlagi til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, styttingu á bótatímabili atvinnuleysisbóta, aukin greiðsluþátttaka sjúklinga vegna lyfja og lækkun á raungildi vaxtabóta. Ályktanir miðstjórnar ASÍ og aðildarfélaga má sjá í meðfylgjandi viðauka við umsögnina.

Athugasemdir við einstaka þætti frumvarpsins:
1., 2. og 4. gr. - Lagt er til að 0,325% hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkuð um 20% á ári frá og með árinu 2015 og falli þannig alfarið brott á árinu 2019. Fyrirkomulagið byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá 15. nóvember 2005 þar sem stjórnvöld lýsa vilja sínum til samstarfs við Alþýðusambands Íslands og Samtök atvinnulífsins um leiðir til að draga úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóða og jafna stöðu milli einstakra sjóða. Samkomulagið kveður á um jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða á samningssviði ASÍ og SA með framlagi af tryggingargjaldsstofni sem komi til framkvæmda á árunum 2007-2009. Framlaginu var síðan komið á með breytingu á lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald í desember árið 2006. Fyrir liggur að örorkutíðni innan ólíkra starfsgreina er mjög misskipt og því er örorkubyrði starfsgreinabundinna lífeyrissjóða sömuleiðis mjög misjöfn. Þannig er t.a.m. örorkubyrði lífeyrissjóða verkafólks og sjómanna margföld á við lífeyrissjóði skrifstofufólks og opinberra starfsmanna. Skerðing á framlagi til jöfnunar mun því koma verst niður á þeim sjóðum sem hafa hvað þyngsta örorkubyrði og verða þess valdandi að skerða þarf réttindi sjóðfélag í þeim sjóðum um allt að 4,5%. Þá liggur einnig fyrir að breytingin mun eingöngu koma niður á lífeyrisréttindum launafólks á almennum vinnumarkaði en sjóðir þeirra þurfa lögum samkvæmt að rétta stöðu sína með skerðingu á réttindum á sama tíma og réttindi opinberra starfsmanna sem tryggð eru með skattfé, standa óhögguð.
Alþýðusambandið mótmælir harðlega þeirri fyrirætlan stjórnvalda að rjúfa einhliða það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins og krefst þess að fallið verði frá þessari skerðingu. Engin umræða eða rökstuðningur hefur komið fram um þá fullyrðingu sem sett er fram í frumvarpi til fjárlaga, um að forsendur yfirlýsingarinnar frá árinu 2005 hafi breyst talsvert og því eigi að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar. Með þessari aðgerð er vegið verulega að lífeyrisréttindum þess launafólks sem hvað lakast stendur.
3.gr.- Lögð er til frestun á framlagi ríkisins af almennu tryggingagjaldi til starfsendurhæfingarsjóða þriðja árið í röð. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu í almennum kjarasamningum í febrúar 2008 um að hefja uppbyggingu á nýju fyrirkomulagi starfsendurhæfingar fyrir þá starfsmenn sem slasast eða veikjast til lengir tíma þannig að vinnugeta þeirra skerðist. Markmið samningsaðila var að tryggja að komið sé að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði eins virkur á vinnumarkaði og kostur er. Samið var um að launagreiðendur hæfu greiðslu 0,13% iðgjald til nýstofnaðs Starfsendurhæfingarsjóðs um mitt ár 2008 og jafnframt mundu ASÍ og SA beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir á samningssviði þeirra greiði samsvarandi iðgjald til sjóðsins. Þessu til viðbótar var gert samkomulag við þáverandi ríkisstjórn, sem undirritaði yfirlýsingu þess efnis í tenglum við gerð kjarasamninganna í febrúar 2008, um að ríkissjóður leggi Starfsendurhæfingarsjóði til sömu fjárhæð og launagreiðendur frá og með ársbyrjun 2009. Í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins frá því í júní 2009 var framkvæmd yfirlýsingarinnar frá febrúar 2008 ítrekuð og var þar kveðið á um að lögfestingu á gjaldi ríkisins. Á árinu 2012 var loks bundið í lög að ríkissjóður greiddi þriðjungs framlag til starfsendurhæfingarsjóðs á móti lífeyrissjóðum og aðilum vinnumarkaðarins. Greiðslum ríkissjóðs var hins vegar frestað um eitt ár með óformlegu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð fjárlaga fyrir árið 2014 gegn því að greiðslur ríkisins hæfust á árinu 2015.
Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við að nú skuli stjórnvöld hins vegar ganga þvert á þetta samkomulag og þá samninga sem gerðir hafa verið á undanförunum árum og ákvarða einhliða að falla frá þríhliða samkomulagi um fjármögnun starfsendurhæfingar sem ella hefðu numið um 1,3 milljörðum króna á árinu 2015. Sú forgangsröðun sem þarna birtist lýsir skammsýni stjórnvalda varðandi mikilvægi þess að stuðla að endurhæfingu til þátttöku á vinnumarkaði í kjölfar áfalla og draga þannig markvert úr örorkutíðni. Þetta er brýnt hagsmunamáli fyrir bæði einstaklinga og samfélag.
5. gr. – Lögð er til framlenging á tímabundnu ákvæði laga um tekjuskatt nr. 90/2003 vegna breytingar á ákvæði um vaxtabætur. Í þessu samhengi vill Alþýðusambandi benda á að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta hafa nú verið óbreyttar frá árinu 2011 á sama tíma og laun, verðlag og ekki síst húsnæðisverð hafa hækkað. Húsnæðisstuðningur ríkisins hefur því á liðnum árum lækkað umtalsvert að raungildi. Til viðbótar áréttar Alþýðusambandið nauðsyn þess að stjórnvöld komi með ríkulegum hætti að uppbyggingu á nýju húsnæðiskerfi hér á landi sem m.a. tryggir verulega uppbyggingu á félagslegu húsnæði fyrir þá hópa sem í dag hafa óviðráðanlega háan húsnæðiskostnað og fárra kosta völ á húsnæðismarkaði. Auk þess er grundvallar atriði að endurskoða húsnæðisbótakerfið með það að leiðarljósi að auka jafnræði milli búsetuforma og auka stuðning við leigjendur sem eru þeir hópar sem standa hvað verst að vígi á húsnæðismarkaði.
16.-18. gr. - Lagt er til að breyta ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar þannig að lengd bótatímabils atvinnuleysisbóta verði stytt úr þremur árum í tvö og hálft ár. Alþýðusambandið leggst alfarið gegn þessum fyrirætlunum sem vega hart að þeim sem veikast standa á vinnumarkaði. Fyrir liggur að 600-700 manns munu vegna þess missa bótarétt sinn hjá atvinnuleysistryggingasjóði um áramótin og ekki eiga kost á annarri framfærslu en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem þó er lægri og lítur mun stífari skilyrðum en bætur atvinnuleysistrygginga. Stór hópur fólks mun því verða án framfærslu vegna þessa og fjölga mun enn í þeim hópi sem býr við fátækt í okkar samfélagi. Þessi aðgerð skýtur einkar skökku við í ljósi þess að á sama tíma er dregið verulega úr framlögum til virkra vinnumarkaðsaðgerða og námstækifæra fyrir atvinnuleitendur.
19.gr. – Lagt er til að útgjöld vegna S-merktra lyfja falli undir hið almenna greiðsluþátttökukerfi lyfja eins og önnur lyf sem sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu á og ávísað er til notkunar utan heilbrigðisstofnanna. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga mun þessi ráðstöfun spara um 145 milljónir króna sem falla mun á viðkvæman hóp sjúklinga en einkum er um dýr, sérhæfð lyf að ræða. Til viðbótar við þetta stendur skv. frumvarpi til fjárlaga til að hækka viðmiðunarfjárhæðir í greiðsluþátttökukerfi lyfja sem mun draga úr útgjöldum ríkisins um 160 milljónir króna til viðbótar og enn auka kostnað sjúklinga. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga í lyfjum og öðrum heilbrigðiskostnaði hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum og lýsir Alþýðusambandið verulegri andstöðu við þessa þróun sem veldur því að efnahagur ræður því í sífellt meiri mæli hvort einstaklingar geta sótt sér nauðsynleg lyf og heilbrigðisþjónustu og stórir hópar fólks þurfa að neita sér um þessa grundvallar þætti. Vaxandi greiðsluþátttaka leggst þungt á sjúklinga og tekjulága hópa sem hætta er á að hindri aðgengi að þjónustunni og auki misskiptingu. Þessi þróun er ógn gegn þeirri grundvallarsýn sem sem sátt hefur verið um í okkar samfélagi að öllum skuli tryggt jafnt aðgengi að bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á óháð efnahag og aðstæðum.
20.gr. – Lögð er til breyting á álagningastofni vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Alþýðusambandið vill í þessu samhengi benda á að þrátt fyrir að dregið hafi úr fjölda þeirra mála sem koma til úrvinnslu hjá Umboðsmanni skuldara er mikilvægt að ekki verði gengið lengra í að skerða framlög til stofnunarinnar en svo að henni verði áfram tryggður rekstrargrundvöllur. Brýnt er að heimili í fjárhagserfiðleikum geti sótt sér hlutlausa ráðgjöf og þjónustu til Umboðsmanns sem byggt hefur upp sérþekkingu á þessu sviði.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz,
hagfræðingur