Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um vinnustaðanámssjóð

Reykjavík, 22. maí
Tilvísun: 201205-0036
 
Efni: Frumvarp til laga um vinnustaðanámssjóð, 765. mál
 
Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu átti ASÍ fulltrúa í þeirri nefnd sem vann að því.
 
Að mati ASÍ hefur lengi legið fyrir nauðsyn þess að stuðla að og skapa fjárhagslega hvata til að  mæta kostnaði fyrirtækja og stofnana af nemahaldi og jafnframt auka möguleika nemenda á að ljúka starfsnámi sínu á eðlilegum tíma. Þannig má efla og styrkja verk- og tæknimenntun sem er eitt brýnasta verkefni í menntamálum hér á landi. Það er einmitt markmiðið með þessu frumvarpi. Jafnframt er mikilvægt að benda á að skapa þarf nauðsynleg skilyrði til að sjóðurinn fái nægilega fjármuni til að ná þeim markmiðum sem lýst er hér að framan. Enn er langt í land með að svo sé.
 
Að lokum áréttar Alþýðusambandið þá gagnrýni sem fulltrúi sambandsins setti fram í starfi nefndarinnar á hlutföll og samsetningu í stjórn vinnustaðanámssjóðs. Af níu stjórnarmönnum kemur aðeins einn fulltrúi frá ASÍ sem eru samtök þorra launafólks á vinnumarkaði, bæði almennum og opinberum, og þar með þeirra sem sjóðurinn er ætlaður fyrir. Hér er um verulega skekkju og ósamræmi að ræða sem eðlilegt er að fjallað verði um á vettvangi Alþingis.
 
Virðingarfyllst,
 
F.h. Alþýðusambands Íslands
 
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri